Auglýsingahlé Billboard: Verk eftir Hrafnkell Sigurðsson valið til sýningar

Billboard, sem rekur auglýsingaskjái í strætóskýlum og við gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, efndi í haust til opinnar samkeppni um myndlistarverk í almannarými í samstarfi við Y gallery og Listasafn Reykjavíkur.

Dagana 1.–5. janúar 2022 verður Auglýsingahlé á yfir 350 stafrænum flötum Billboard um allt höfuðborgarsvæðið. Þessi tími verður helgaður sýningu á nýju verki eftir myndlistarmanninn Hrafnkel Sigurðsson sem valinn var úr hópi yfir 50 umsækjenda.
Reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk Hrafnkels dag hvern. 
 
Listamaðurinn fær 1.000.000 kr greiddar fyrir verkið sem verður að sýningartíma loknum gefið í safneign Listasafns Reykjavíkur. Jafnframt er stefnt að því að verkið verði áfram sýnilegt í almenningsrými í borginni að loknu Auglýsingahléi Billboard.
 
Verkið verður sýnt á yfir 350 skjáum um alla borg, bæði skjáum í strætóskýlum og stórum skjáum við fjölfarnar götur.
 
Valnefnd var skipuð skipuð fulltrúum frá Y galleríi, Listasafni Reykjavíkur, Billboard og SÍM, þeim Sigurði Atla Sigurðssyni, Ólöfu Kristínu Sigurðardóttur, Leifi Ými Eyjólfssyni, Jóni Felix Sigurðssyni og Elísabetu Stefánsdóttur. 

Hrafnkell lýsir verkinu, sem hann kallar Upplausn/Resolution, svona: "Verkið er abstrakt, það er ekki beint sýnilegt samhengi við umhverfið, það fer út úr öllu samhengi. Það er aftengt heiminum eins og við þekkjum hann".

Hrafnkell segist fara þannig inn í tómið, vinnur með pixel, ljósmynd og himingeiminn og vinnur myndir þar sem tæknin endar; "þú kemst ekki lengra út í geim. Myndirnar eru af vetrarbrautinni, þar sem ég fer inn í þá mynd og lengra en það en fer svo ennþá lengra". Hrafnkell lýsir þessu eins og stafrænni náttúrutengingu, stafrænan skjá sér hann sem algjöra andstæðu við náttúruna, en hér er Hrafnkell búinn að tengja náttúruna við skjáinn.
 
Verkefninu er ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa fólki tækifæri á að njóta listar um alla borg.