Eilíf endurkoma: Sýningarlok
Síðasti dagur sýningarinnar Eilíf endurkoma – Kjarval og samtíminn er sunnudagurinn 19. september.
Á þessari viðamiklu sýningu mynda verk Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) þráð sem tengir tvenna tíma. Hér er verkum hans teflt fram ásamt verkum myndlistarmanna sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf síðustu ár.
Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur verið síðari kynslóðum listamanna fyrirmynd og innblástur. Persóna hans og lífsverk svífur yfir vötnum og er það ekki að ósekju. Hjá Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum eru verk Kjarvals varðveitt og rannsökuð. Valin verk hans eru alltaf til sýnis og settar upp fjölbreyttar sýningar sem varpa ljósi á feril hans á breiðum grunni. Gjarnan eru dregin fram verk úr safneign eða sérsýningar haldnar þar sem afmarkaðir þættir í ferli hans og listsköpun eru rannsakaðir. Á þessari sýningu eru verk Kjarvals sett í samtal við yngri verk starfandi listamanna. Sýningin býður því upp á að kynnast enn betur einum merkasta listamanni þjóðarinnar en einnig verkum starfandi listamanna í fremsta flokki sem hafa sett mark sitt á íslenska og alþjóðlega myndlistarsenu.