Listaverk vikunnar: Án titils

Án titils eftir Helga Gíslason frá 1982. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Verk vikunnar er Án titils eftir Helga Gíslason frá 1982. Verkið er staðsett í Grasagarðinum í Laugardal.

Verk Helga fjalla gjarnan um veruleika mannsins sem býr að baki líkamanum. Þannig má sjá verk eins og þetta, þar sem líkaminn er aðeins sýndur að hluta eða bjagaður með öðrum hætti til þess að gefa til kynna veruleikann á bak við yfirborðið og þær áskoranir sem fylgja því að vera til. Um leið endurspeglar verk eins og þetta átök listamannsins við efnið. Helgi er mjög reyndur í bronssteypu og þekkir þá fornu hefð við gerð skúlptúra. Hann er þannig ef til vill ekki síður að kallast á við listasöguna í verki eins og þessu.

Helgi Gíslason (f.1947) er vel þekktur fyrir þrívíðar höggmyndir sínar, bæði í brons og gifs, sem hafa verið sýndar víða hér á landi og erlendis. Hann á nokkur sjálfstæð verk og minnisvarða í almenningsrýmum borgarinnar og gerði meðal annars altarið í Fossvogskirkju og málmdyr Seðlabanka Íslands. Verk Helga eru gjarnan sambland hlutbundinna viðfangsefna, þá helst mannslíkamans, og óhlutbundinna forma. Þar tekst hann á við tilvist mannsins og tjáir litróf tilfinninganna.

Einkasýning á verkum Helga, Þar sem mörkin liggja, opnar laugardaginn 31. ágúst kl. 16.00 í Ásmundarsafni.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.