Myndlistarmaðurinn Melanie Ubaldo hlaut styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur
Myndlistarmaðurinn Melanie Ubaldo (1992) hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur. Styrkurinn var afhentur í Listasafni Íslands.
Melanie á stórt verk á sýningunni Abrakadabra sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Verkið – Er einhver Íslendingur að vinna hér? (2018) tekur á móti gestum þegar komið er inn í safnið.
Melanie er ein af stofnendum listhópsins Lucky 3, en hópurinn samanstendur af listamönnum af filippeyskum uppruna. Lucky 3 verða gestir Morgunkorns um myndlist í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, miðvikudaginn 1. desember kl. 9.00. Listamenn, nemar, fagfólk og aðrir áhugasamir eru hvattir til þess að koma og taka þátt í samtali um málefni myndlistar á Morgunkorni um myndlist en viðburðurinn er öllum opinn, frítt inn og kaffi á könnunni. Listasafn Reykjavíkur óskar Melanie Ubaldo hjartanlega til hamingu með styrkinn!