Ný sýning í Ásmundarsafni – Sirra Sigrún Sigurðardóttir & Ásmundur Sveinsson: Ef lýsa ætti myrkva

Ný sýning í Ásmundarsafni – Sirra Sigrún Sigurðardóttir & Ásmundur Sveinsson: Ef lýsa ætti myrkva

Sýning á verkum Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur og Ásmundar Sveinssonar, Ef lýsa ætti myrkva, verður opin gestum í Ásmundarsafni frá og með fimmtudeginum 13. maí kl. 10.00.

Vegna samkomutakmarkana verður ekki um hefðbundna sýningaropnun að ræða en gestir eru velkomnir í safnið frá kl. 10-17.00. Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður stjórnar Ásmundarsafns, ávarpar gesti kl. 14.00.

Ásmundarsafn er nú opið gestum að nýju eftir umtalsverðar breytingar. Á sýningunni Ef lýsa ætti myrkva nýtir Sirra umfangsmesta skúlptúr Ásmundar, bygginguna sjálfa, og speglaða geisla sólarinnar til að búa til risavaxna teikningu í formi abstrakt sólúrs. Ný verk Sirru mynda samtal við valin verk Ásmundar og kinka kolli til hugmyndaheims hans og einlægs áhuga á tækni og vísindum, og næmni hans fyrir ólíkum efnum og efnistökum, sem birtist í óttaleysi hans við að breyta um stíl og aðferðir í gegnum ferilinn.

Verk Sirru eru kosmísk í eðli sínu og tengjast gjarnan inn á vangaveltur um stöðu okkar inni í gangverki náttúrunnar, eðlisfræðinnar og þeirra afla sem halda heiminum gangandi. Þau framkalla oft stöðu okkar sem einstaklinga, vægi okkar og smæð þar sem hið smáa er sett í samhengi við það stærra og merking er yfirfærð frá einu fyrirbæri yfir á annað svo úr verður ný skynjun, ný sýn. 

Sirra Sigrún Sigurðardóttir er fædd árið 1977 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og útskrifaðist með meistaragráðu í Art Practice frá School of Visual Arts í New York árið 2013.

Sirra Sigrún hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Hafnarborg og Kling & Bang og tekið þátt í samsýningum og verkefnum víða um heim, þar á meðal í Chinese European Art Center í Xiamen í Kína, Amos Andersons Konstmuseum í Helsinki í Finnlandi og í Tate Modern og Frieze Projects í London á Englandi. Sirra er einn stofnenda Kling & Bang í Reykjavík.

Ásmundur Sveinson (1893-1982) var frumkvöðull í íslenskri myndlist. Hann nam klassíska höggmyndalist og vann í hefðbundin efni framan af. Viðfangsefni hans voru tengd nærumhverfinu, vinnandi stéttir, þjóðsögur og sagnarfurinn. Ásmundur reisti vinnustofu sína og heimili, kúluhúsið, í nokkrum áföngum á árunum 1942-59. 

Sýningarstjóri er Ingibjörg Sigurjónsdóttir

Auk sýningarinnar Ef lýsa ætti myrkva verður opnuð í Kúlunni sýningin Hönnun í anda Ásmundar sem er framlag Listasafns Reykjavíkur til HönnunarMars sem fram fer dagana 19.-23. mars.