Ný sýning í Hafnarhúsi – D43 Auður Lóa Guðnadóttir: Já/Nei

Ný sýning í Hafnarhúsi – D43 Auður Lóa Guðnadóttir: Já/Nei

Sýning Auðar Lóu Guðnadóttur, Já/Nei, verður opin gestum í D-sal Hafnarhússins frá kl. 17.00 fimmtudaginn 18. mars 2021. Vegna samkomutakmarkana verður ekki um hefðbundna sýningaropnun að ræða. Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi er opið alla daga vikunnar frá kl. 10-17.00 og til kl. 22.00 á fimmtudögum. 

Auður Lóa er fædd árið 1993 í Reykjavík. Hún nam myndlist við Listaháskóla Íslands og lauk BA gráðu árið 2015. Síðan hefur hún starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn. Hún hlaut hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2018.

Auður Lóa fæst mest við skúlptúr og vinnur gjarnan með hversdagslegt myndefni og sterkt myndmál. Í verkum sínum leitast hún við að túlka hið óvænta, en almenna. Verkin, í samhengi við hvert annað, við umhverfi sitt, í samtali við miðil og efni, segja sögu, reyna að grafa holu í eitthvað óáþreifanlegt. Á sýningunni Já/Nei er engu líkara en að gengið sé inn í leitarsögu listamannsins á internetinu. Í salnum ægir saman tugum skúlptúra sem vísa í sögu, samtíma, listasögu, dægurmenningu, pólitík og hið fyndna og undarlega. Listamaðurinn hefur fundið innblástur á ferðalögum sínum niður hinar ýmsu kanínuholur veraldarvefsins, vistað stafrænar myndir sem vekja hjá henni áhuga og undrun og endurskapað í þrívíðu minnisvörðum úr pappamassa.

Auður Lóa sækir innblástur í svokallaðar Staffordshire-styttur sem urðu vinsælar á Viktoríutímabilinu í Bretlandi. Verk hennar eru úr máluðum og lökkuðum pappamassa. Efnið lætur illa að stjórn og tekur stundum völdin úr höndum listamannsins. Útkoman verður ófullkomin eftirlíking af fyrirmyndum úr fundnu myndefni.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Sýningastjóri er Aldís Snorradóttir.