Ný sýning á Kjarvalsstöðum: Eilíf endurkoma
Eilíf endurkoma er heiti viðamikillar myndlistarsýningar sem verður opin fyrir gestum Listasafns Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, laugardaginn 27. mars. Af ástæðum sem okkur eru öllum kunn verður ekki um hefðbundna sýningaropnun að ræða heldur verður húsið opið frá kl. 10-17 og frítt inn á opnunardegi. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpar gesti kl.16.00 og einn listamanna sýningarinnar – Páll á Húsafelli, leikur á náttúruhljóðfæri kl. 11 og kl. 14.00.
Eilíf endurkoma er yfirskrift viðamestu sýningar Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum á yfirstandandi starfsári. Sýningin er jafnframt einstakt tækifæri til að upplifa verk Jóhannesar S. Kjarvals í samhengi verka listamanna samtímans. Hér er verkum hans teflt fram í nánu samtali við verk sextán núlifandi listamanna. Sýningin dregur fram mörg af hugðarefnum meistarans og settar fram tilgátur um tengsl við hugðarefni starfandi listamanna. Endurómur hugmynda skapandi huga einkennir þessa fjölbreyttu sýningu þar sem samtal tveggja tíma verður að áhugavekjandi upplifun fyrir gesti.
Á sýningunni eru lykilverk eftir Kjarval og verk samtímalistamanna unnin í fjölbreytta miðla. Sýningin einkennist jafnframt af stórum innsetningum og teygir anga sína um alla Kjarvalsstaði frá vori fram á haust. Á meðal verka eftir Kjarval má nefna Fjallamjólk og verkið Frá Þingvöllum frá árinu 1942. Það verk er í eigu embættis forseta Íslands og því sjaldséð á sýningum.
Þetta er í fyrsta sinn sem verkum meistara Kjarvals er telft fram með þessum hætti í samhengi verka listamanna samtímans. Lykilverk á sýningunni eru eftir Ólaf Elíasson og vídeóinnsetningin Lava&Moss eftir Steinu Vasulka. Ný og áður ósýnd málverk eru eftir Eggert Pétursson og Ragnar Kjartansson, en hann málaði utandyra í Eldhrauni innblásinn af verki eftir Kjarval sem hann á sjálfur. Einar Garibaldi veltir fyrir sér arfleifð Kjarvals og áhrifum landslagsverka hans á upplifun okkar af landinu. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og snerta heim Kjarvals með ólíkum hætti en landið og tengsl okkar við það er ríkt þema í verkum Guðrúnar Kristjánsdóttur, Katrínar Elvarsdóttur, Katrínar Sigurðardóttur, Rögnu Róbertsdóttur og Páls á Húsafelli.
Aðrir listamenn á sýningunni eru Egill Sæbjörnsson, Gjörningaklúbburinn, Guðrún Einarsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Kristján Guðmundsson, Ragna Róbertsdóttir og Sigurður Guðjónsson.
Sýningarstjórar eru Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Markús Þór Andrésson og Edda Halldórsdóttir. Sýningarhönnuður er Axel Hallkell Jóhannesson.