Síðustu dagar sýningarinnar Tilraun til faðmlags nr. 31 í Hafnarhúsi
Síðasti dagur sýningarinnar D44 Claire Paugam: Tilraun til faðmlags nr. 31 er sunnudagurinn 5. desember.
Á sýningunni setur Claire fram sýn af stórkostlegu landslagi. Sýningarsalurinn virkar eins og útsýnispallur, með bekk fyrir miðju gagnvart landslagi sem gæti verið raunverulegt. En ekki er allt sem sýnist. Í verkum sínum vinnur hún ítrekað með þætti eins og formleysu, óreiðu og að láta af stjórn. Hér veltir hún fyrir sér mörkum líkama, landslags og náttúru og spyr spurninga eins og: Hvar staðsetjum við okkur gagnvart/í landslagi? Hvar liggja mörk líkamans og landslagsins? Claire er hugfangin af þess háttar millibilsástandi; hvað er fyrir utan og hvað er fyrir innan, hvað er og hvað er ekki, og notar myndrænan samanburð til að tjá hugmyndir sínar og ímyndun.
Claire Paugam er fædd árið 1991 í Frakklandi og í dag býr hún og starfar í Reykjavík. Hún hlaut hvatningarverðlaun Íslensku myndlistaverðlaunanna árið 2020 og er stjórnarmaður í Nýlistasafninu.
Claire Paugam er 44. listamaðurinn til að sýna í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur í D-sal frá árinu 2007. Hér halda upprennandi listamenn í íslenskri listasenu í fyrsta sinn einkasýningu í opinberu safni.
Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.