Síðustu sýningadagar í Hafnarhúsi

Síðustu sýningadagar

Sýningum Auðar Lóu Guðnadóttur: Já/Nei, Huldu Rósar Guðnadóttur: WERK – Labor Move og Ragnars Axelssonar: Þar sem heimurinn bráðnar í Hafnarhúsi lýkur næstkomandi sunnudag 9. maí.

Laugardaginn 15. maí verður opnuð í Hafnarhúsi útskriftarsýning Listaháskóla Íslands 2021: Af ásettu ráði

Um sýningarnar

Já/Nei
Auður Lóa fæst mest við skúlptúr og vinnur gjarnan með hversdagslegt myndefni og sterkt myndmál. Í verkum sínum leitast hún við að túlka hið óvænta, en almenna. Verkin, í samhengi við hvert annað, við umhverfi sitt, í samtali við miðil og efni, segja sögu, reyna að grafa holu í eitthvað óáþreifanlegt. Auður Lóa hlaut hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2018.

WERK – Labor Move
Á einkasýningu sinni í A-sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúsi beinir Hulda Rós Guðnadóttir sjónum að samfélagslegum viðfangsefnum í staðbundinni innsetningu. Innsetningin WERK – Labor Move er unnin sérstaklega fyrir salinn en Hafnarhúsið var upphaflega byggt sem vörugeymsluhús á hafnarbakkanum. Verk Huldu Rósar hafa verið sýnd í listasöfnum og opinberu sýningarrými víðs vegar um heim.

Þar sem heimurinn bráðnar
Í meira en 40 ár hefur Ragnar Axelsson myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða. Í ljósmyndaverkum sínum og ljósmyndabókum endurspeglar hann óvenjuleg tengsl íbúa þessara svæða við öfgakennt umhverfi sitt – tengsl sem eru nú stöðugt að breytast vegna breytinga á loftslagi. Ragnar skrásetur hvernig þessar breytingar hafa áhrif á líf fólks og dýra og hvaða ógn býr að baki hlýnun jarðar. Ragnar hefur hlotið margháttaðan heiður fyrir verk sín.