Útilistaverkið Himinglæva eftir Elínu Hansdóttur vígt við Hörpu

Útilistaverkið Himinglæva eftir Elínu Hansdóttur vígt við hátíðlega athöfn við Hörpu

Í tilefni 10 ára afmælis tónlistarhússins Hörpu samþykkti borgarráð að reisa listaverk á opnu svæði við húsið. Samkvæmt tillögu frá Listasafni Reykjavíkur varð listaverkið Himinglæva eftir Elínu Hansdóttur fyrir valinu og er það gjöf ríkis og borgar til Hörpu. Verkinu var valinn staður við enda Reykjastrætis þar sem það blasir við þegar komið er að Hörpu en einnig þegar farið er eftir Sæbraut.

Valið á listaverkinu á sér langan aðdraganda og er hluti af endurvakinni vinnu sem fram fór í hönnunarferli svæðisins umhverfis Hörpu.

Form verksins er margslungið og er sótt til kenninga um myndgerða hljóðbylgju – verkið er einskonar hljóðfæri og má segja  að vindurinn „spili“ á skúlptúrinn og hafi þannig vísan til tónlistar og hæfir Himinglæva því einkar  vel fyrir utan Hörpu. Titillinn Himinglæva er sóttur í Norræna goðafræði en hún er ein af níu dætrum sjávarguðsins Ægis og konu hans Ránar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhenda verkið við hátíðlega athöfn kl. 16.00 laugardaginn 7. maí á Hörputorgi.