Blönduð tækni

Blönduð tækni (Mixed media)
Listamenn geta í raun notað hvaða efni sem er í verk sín. Margir vinna innan tiltekinna miðla og sérhæfa sig til dæmis í leirlist, samklippi eða textíl á meðan aðrir skapa ólík verk allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd. Þegar listaverk er búið til með svo fjölbreyttum aðferðum og ólíkum efnum að erfitt reynist að flokka það sem eitthvað ákveðið er brugðið á það ráð að segja að verkið sé „unnið með blandaðri tækni“. Blönduð tækni er stundum bara einföldun því að annars yrði of langt mál að telja upp öll smáatriðin á bak við verkið.

Dæmi úr safneign:
Verk Unndórs Egils Jónssonar, Spýtu bregður, er dæmi um verk sem unnið er með blandaðri tækni. Verkið er heillandi vél sem er haganlega smíðuð úr viði. Handsmíðuð hjól, tannhjól og annar búnaður tengjast í eitt gangvirki sem gaman er að fylgjast með. Á vissum tímum slær vélin á málmplötu og hringir þá eins og bjalla. Svo ýtir vélin við spýtu sem hrekkur við samanber heiti verksins, „Spýtu bregður.“ 

Helstu hugðarefni Unndórs Egils Jónssonar eru umbreytingarferli náttúrunnar. Verk hans fjalla um merkingarmun hins manngerða og náttúrulega og leit að leiðum til að skilja umhverfið í nýju ljósi. Verkin einkennast af vandvirku handbragði listamannsins, natni fyrir fallegum smáatriðum og efnisvali. Lokaniðurstaða verka hans er oft lágstemmd og fáguð, með óvæntum útúrsnúningum.

Mynd: Unndór Egill Jónsson, Spýtu bregður, 2021