Miðill
Miðill (Medium)
Orðið miðill í myndlist merkir hvers konar listaverk er um að ræða. Miðill getur ýmist átt við sérstaka grein myndlistar (vídeóverk, málverk, teikning) eða efnisval (16mm filma, olía á striga, kol á pappír). Hvaða efni og aðferð velur listamaður til að miðla hugmynd sinni? Sumir listamenn sérhæfa sig í einum miðli (listmálari, myndhöggvari, vídeólistamaður) og aðrir vinna þvert á ólíka miðla (þverfaglega). Að baki miðla getur verið margra alda hefð (t.d. málverk og skúlptúr) á meðan aðrir miðlar eru tiltölulega nýir (vídeóverk, gjörningur).
Dæmi úr safneign:
Katrín Elvarsdóttir er listamaður sem hefur sérhæft sig í ljósmyndamiðlinum. Verkið Banana Plant Shamain Island samanstendur af tveimur ljósmyndum af því sama, bananaplöntu undir berum himni í Kína. Sú minni er í náttúrulegum litum en í þeirri stærri er litunum snúið við í andhverfu sína. Þannig notar Katrín ljósmyndatæknina til að skapa eina mynd sem er náttúruleg og aðra sem er framandi og undarleg. Það minnir á að bananar eru framandi ávextir sem vaxa í öðru loftslagi en hér á landi. Samt er hægt að kaupa banana úti í búð allt árið um kring.
Mynd: Katrín Elvarsdóttir, Banana Plant Shamain Island, 2019, ljósmynd