Myndlist
Myndlist (Visual art)
Myndlist er sú tegund listsköpunar sem byggir á sjónrænni eða myndrænni framsetningu. Áður fyrr var skilgreiningin nokkuð skýr, enda myndlist byggð á langri hefð (eins og málaralist, teikning, grafík og skúlptúr). Í seinni tíð hafa listamenn verið duglegir við að þenja út hugmyndina um hvað telst vera myndlist og gera tilraunir með aðferðir, tækni og efni. Í kjölfarið hafa bæst við nýjar og fjölbreyttar leiðir (eins og innsetningar, gjörningalist, vídeólist og hljóðverk). Myndlist er almennt aðgreind frá öðrum listgreinum þótt skilin séu oft óljós (eins og tónlist, leiklist og ritlist). Konur, karlar og önnur kyn sem skapa myndlist kallast myndlistarmenn.
Saga myndlistar skiptist eftir ýmsum leiðum eftir því hvernig á hana er litið. Það getur verið eftir tímabilum (eins og endurreisn, rómantík, módernisma og samtíma), stílbrigðum (eins og raunsæi, abstrakt, kúbisma og konseptlist), tilgangi (trúarleg myndlist, skreytilist, nytjalist og áróðurslist) eða svæðum (eins og myndlist Vesturlanda, Asíu og Afríku). Þegar talað er um sögu íslenskrar myndlistar er stundum miðað við tímabilið frá árinu 1900, þegar fyrsta opinbera myndlistarsýningin var haldin hér á landi, og til dagsins í dag. Myndlist var þó sköpuð á Íslandi löngu fyrir það, eða alla tíð frá landnámi, ýmist af fagfólki sem hafði lært til myndlistar eða af handverksfólki. Myndlist sem búin er til af starfandi listamönnum, sem enn eru lifandi, kallast samtímalist.
Mynd: Ásmundur Sveinsson, Listhneigð, 1936