Sýningaropnun: Andlit úr skýjum - mannamyndir Jóhannesar S. Kjarvals
Sýningin Andlit úr skýjum – mannamyndir Jóhannesar S. Kjarvals opnar hjá Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum, fimmtudaginn 16. júní kl. 20.00.
Á gjörvöllum ferli sínum vann Kjarval mannamyndir og á þessari yfirgripsmiklu sýningu fá gestir að kynnast þeim. Hér eru olíumálverk af þekktu fólki frá öllum tímabilum, vatnslitamyndir af ítölsku fólki frá 1920, úrval blek- og túskteikninga frá 1928-30, rauðkrítarmyndir af fjölskyldu og nánum vinum og lítt þekktar andlitsmyndir frá seinni árum hans. Loks má geta um hópmyndir hans sem aldrei hafa verið sýndar saman. Á sýningunni eru einnig allar fáanlegar sjálfsmyndir Kjarvals. Andlitsmyndir Kjarvals hafa skipað veglegan sess á yfirlitssýningum á verkum listamannsins og samsýningum af ýmsu tagi en til þessa hefur sjónum ekki verið beint að þessum myndum sérstaklega.
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885-1972) er einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar og málverk hans og túlkun á náttúru Íslands skipa stóran sess í menningar- og listasögu landsins. Hann hóf þó sinn opinbera listamannsferil sem málari og teiknari andlitsmynda þegar hann vann árið 1923 portrett af fjórum bankastjórum Landsbankans, lífs og liðnum. Teikningar hans af íslensku alþýðufólki frá árunum 1926-30 mörkuðu svo hin stóru þáttaskil á ferli hans en með þeim vann hann hug og hjarta þjóðarinnar. Um leið voru þessar andlitsteikningar fyrstu myndir hans sem keyptar voru fyrir myndlistarsafn þjóðarinnar.
Á sýningunni eru verk víða að, jafnt úr Kjarvalssafneign Listasafns Reykjavíkur, frá Listasafni Íslands og frá einkasöfnurum sem góðfúslega hafa lánað verk sem mörg hver hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur.
Sýningin stendur yfir til 18. september 2022.