Veldu ár
D21 Hildigunnur Birgisdóttir
Dag einn fékk Hildigunnur Birgisdóttir marblett á upphandlegginn og sá stjörnuþoku. Það var þó ekki vegna sársaukans sem hún sá stjörnur og ljós, heldur vegna eftirkasta árekstursins sem umbreyttu litum húðarinnar. Við nánari skoðun og samanburð, virtust hugmyndir um sameigindi gas- og rykskýja himingeimsins og marbletta líkamans minna og minna fjarstæðukenndar. Við nánari athugun og rannsóknir kemst Hildigunnur að því að marið og stjörnuþokan eiga ekki bara litaskalann sameiginlegan, heldur einnig óljós form sín og innihald.
Hildigunnur hefur ávallt byggt myndlist sína á tilraunakenndum vinnubrögðum, sem eru hvort tveggja í senn rökræn og síspyrjandi. Aðferðafræðin felst í viðsnúningi og útúrsnúningi hluta og hugmynda, leikjum með hlutföll og skala, reglur og kerfi, en helst er byrjað á öfugum enda eða af handahófskenndum byrjunarreit. Sýningin Blettur er þar engin undantekning. Verkin sem unnin eru í grafík og gifs eru niðurstöður rannsókna listamannsins á litasamsetningum marsins og stjarnanna, rannsókna sem eru þó í órafjarlægð frá hinni vísindalegu aðferð. Einnig hefur hún gert sýninguna að nokkurs konar stefnumóti þar sem áhorfandinn þarf að nálgast verkin með því að fara fyrst í gegnum aðra ótengda sýningu. Þannig er þeim áhorfendum sem fara hefðbundna leið að D salnum, og staldra við til að lesa þennan texta, gert að koma að verkunum um annan inngang.
Hildigunnur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur síðustu ár tekið þátt í fjölda samsýninga sem og haldið einkasýningar víða um land. Hildigunnur hefur verið virk á ýmsum sviðum listarinnar m.a. tekið að sér hlutverk sýningarstjóra, ritstjórnar og er einn af stofnendum bókverkaverslunarinnar og útgáfunnar Útúrdúrs.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.