Veldu ár
Teiknisamkeppni
Listasafn Reykjavíkur efndi til tvíþættrar teiknisamkeppni í tengslum við sýninguna Erró – Teikningar. Samkeppnin var annars vegar opin grunnskólabörnum í 7. – 10. bekk af landinu öllu og hins vegar almenningi búsettum á Íslandi. Tveir drátthagir einstaklingar hlutu vegleg verðlaun frá Listasafni Reykjavíkur þegar sýning á úrvali verka úr teiknisamkeppni sem safnið stóð fyrir var opnuð í Hafnarhúsinu 12. nóvember.
Þetta eru þau Ingibjörg Hrefna Pétursdóttir, 15 ára nemandi í 10. bekk Foldaskóla fyrir myndina Regn í flokki grunnskólanema í 7. - 10. bekk og Relja Borosak í flokki almennings fyrir myndina "Ég". Verðlaunahafarnir hlutu hvor um sig áritað grafíkverk eftir Erró, sem gefið er út í takmörkuðu upplagi. Hvorki fleiri né færri en 114 teikningar bárust í keppnina, en til hennar var efnt í tilefni af þeim fjölbreytilegu sýningum sem nú standa yfir í Listasafninu þar sem teikningin er í forgrunni.
Um sextíu verk voru valin úr innsendum teikningum og verða þau til sýnis í Hafnarhúsinu til ársloka. Markmiðið með samkeppninni var að auka skilning, þekkingu og áhuga almennings og nemenda á teikningu sem listformi. Í flokki grunnskólabarna bárust 68 teikningar frá 15 grunnskólum en í flokki almennings bárust 46 verk.
Dómnefndina í samkeppni fyrir grunnskólanema skipuðu Alma Dís Kristinsdóttir verkefnastjóri fræðslu við Listasafn Reykjavíkur, formaður, Dagný Sif Einarsdóttir kennari og stjórnarmaður í FÍMK (Félagi íslenskra myndlistakennara) og Bryndís Siemsen kennari og fulltrúi í HÁM (Hópi áhugasamra myndlistakennara). Dómnefnd í samkeppni fyrir almenning skipuðu Helga Lára Þorsteinsdóttir deildarstjóri safnadeildar Listasafns Reykjavíkur, formaður, Ásmundur Ásmundson myndlistarmaður og fulltrúi SÍM og Guðni Tómasson listfræðingur.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.