Veldu ár
Hraðari og hægari línur - Úr einkasafni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur
Frá örófi alda hefur maðurinn dregið línu. Lína er mörkuð í sand, á húð, rist í eða dregin á mjúkan hellisvegg. Línan er mörkuð með fingri, reyk, jurtum, dýrahárum, kolum, grafít, bleki og eggjárnum, af mismunandi ástæðum og menningarlegri afstöðu til merkingar athafnarinnar og teikningarinnar sjálfrar.
Sýningin Hraðari og hægari línur dregur titil sinn af verki eftir Kristján Guðmundsson frá árinu 1976, sem sjá má á sýningunni.
Á sýningunni má skoða hið víðfeðma fyrirbæri teikninguna í gegnum valin tví- og þrívíð verk yfir sextíu íslenskra og erlendra myndlistarmanna, sem eru þó aðeins hluti af safneign listsafnaranna Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur en þau hjónin hafa safnað íslenskri og erlendri samtímamyndlist frá 7. áratugnum fram til dagsins í dag og hefur safneign þeirra að geyma yfir 1.000 verk.
Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á talsvert vítt svið teikningarinnar í myndlist síðastliðinna áratuga, hlutbundin og óhlutbundin viðfangsefni, tengsl línuteikningar, líkama og rýmis, og yfirfærslu teikningar yfir í prent- og málverk. Sýningin gefur þó ekki tæmandi mynd af teikningunni sem fyrirbæri enda endurspeglar listaverkasafn þeirra Péturs og Rögnu persónulegan áhuga þeirra á verkum ákveðinna listamanna en er ekki almennt, listsögulegt yfirlit.
Mörg verkanna á sýningunni þenja skilgreiningarmörk hefðbundinnar teikningar og veitist gestum tækifæri til að skoða fyrirbærið teikningu útfrá megin efnivið hennar, línunni, hreyfingunni, tengingu við mannslíkamann, skuggann, flötinn og rýmið.
Verkin á sýningunni spanna tímabilið frá 1961 til 2011.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.