Veldu ár
Libia Castro og Ólafur Ólafsson - Allir gera það sem þeir geta
Verkið „Allir gera það sem þeir geta“ eftir Libiu Castro og Ólaf Ólafsson var unnið samkvæmt beiðni Listasafns Reykjavíkur árið 2008 fyrir nýja röð sýninga í Hafnarhúsi. Sýningaröðinnivar ætlað að taka tengsl safna við almenningsrýmið utan veggja þeirra til gagnrýninnar skoðunar, en það er viðfangsefni sem Libia og Ólafur hafa margsinnis fengist við í verkum sínum. Í höndum Ólafs og Libiu varð sýningarsalurinn í Hafnarhúsinu að framleiðslu- og kynningarsvæði þar sem mátti m.a. sjá upptökustúdíó og klippiver þar sem þau framkvæmdu tilraunir fyrir opnum tjöldum á meðan sýningin stóð yfir. Á því tímabili urðu til 35 myndbönd sem sýndu „portrett“ af einstaklingum úr mismunandi þjóðfélagsstéttum og með ýmis konar menntun og sérhæfingu, svo sem heimspekinga, fyrirtækjastjórnendur, þingmenn, heimilislaust fólk, hagfræðinga, aðgerðasinna, ljóðskáld og fanga (sem voru myndaðir í fangelsinu, þar sem þeir fengu ekki að heimsækja safnið). Þátttakendur sögðu frá sjálfum sér, lýstu aðstæðum sínum og uppruna og ræddu reynslu sína og hugmyndir um allt milli himins og jarðar, jafnt heimspekileg málefni, einkamál og það sem hæst bar í þjóðfélaginu og stjórnmálaumræðunni. Að hverri upptöku lokinni klipptu listamennirnir, með aðstoð tveggja tæknimanna, myndbandið og skeyttu því inn í sístækkandi innsetninguna. Eftir því sem myndböndunum fjölgaði urðu þau hreyfanleg innan innsetningarinnar og ferðuðust um hana.
Þátttakendur: Agnes Ósk Þorgrímsdóttir, Andri Snær Magnason, Annþór Kristján Karlsson , Ásmundur Ásmundsson, Benedikt H. Bjarnason, Björn Þorsteinsson, Edda Rós Karlsdóttir, Einar (Beggi) Guðmundsson, Elda Thorisson-Faurelien, Elín Helga Steingrímsdóttir, Grímur Atlason, Guðrún Pétursdóttir, Halldór B. Runólfsson, Henry Alexander Henrysson, Hjálmar Sveinsson, Jón Gnarr, Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Linda Guðmundsdóttir, Magnús Árni Skúlason, Methúsalem Þórisson, Ósk Vilhjálmsdóttir, Pétur H. Ármannsson, Regína Bjarnadóttir, Sigriður Þorgeirsdóttir, Sigrún Ólafsdóttir, Sigurður Skúlason, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, Tómas Már Sigurðsson, Valgarður Daði Gestsson, Zuzanna Tokarczyk, Þorsteinn Hilmarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.