Veldu ár
Textíllist 2004
Hér má sjá hvernig listamenn frá ólíkum löndum flétta saman hefð, handverk og nútímalega hugsun og hvernig ólíkur bakgrunnur birtist á mismunandi hátt í verkum þeirra. Þetta er margbrotin samsýning sem gefur áhorfandanum meðal annars tækifæri til að velta því fyrir sér hver viðfangsefni þessara listamanna eru, hvort þau séu frábrugðin viðfangsefnum til dæmis málara eða myndbandsgerðarfólks, hvort að textíllinn marki þeim afmarkaðan bás innan samtímalista eða sé spennandi tól, eitt af verkfærunum í verkfærakistu listamanna í dag.
Sýning þessi er haldin í tilefni af 30 ára afmæli Textílfélagsins. Upp kom sú hugmynd að í stað hefðbundinnar félagssýningar væri áhugavert að skoða textíllist út fyrir ramma félagsins, landsins og í raun miðilsins. Undirbúningur sýningarinnar hefur nú staðið yfir í á annað ár og hefur mikil vinna verið lögð í að skilgreina tilgang og hlutverk textíls í samtímalistum, sem vonandi skilar sér í áhugaverðri sýningu.
Textílfélagið var stofnað árið 1974, í því eru 50 meðlimir og sýningar á verkum félagsmanna hafa verið haldnar með reglulegu millibili. Ákveðið var nú að halda víðtækari sýningu en félagið hefur áður staðið fyrir. Í stað sýningar á verkum félagsmanna var ákveðið að breyta út frá þeirri hefð og leita út fyrir félagið og til annarra landa til að setja saman sýningu í tilefni af 30 ára afmæli Textílfélagsins.
Ákveðið var að tengja sýninguna við norrænar áherslur í textíllist, meðal annars með tengingu við norrænu sýningarröðina Northern Fibre. Sýningin ber því undirtitilinn Northern Fibre V. Aðalmarkmið sýningarinnar er að sýna Íslendingum alþjóðlega textílmyndlist í sinni fjölbreytilegustu mynd, óháð bakgrunni listamanna, efnisnotkun þeirra, útfærslu eða hugmyndafræði Í því skyni var öllum myndlistarmönnum boðið að sækja um þátttöku með því eina skilyrði að þeir tengdu verk sín við textíl. Jafnframt var ákveðið að bjóða 6 erlendum listamönnum að vera með sem unnið hafa listaverk sem áhugaverð eru frá sjónarhorni textíllistar. Þessir listamenn eru annars þekktir fyrir framlag sitt á öðrum sviðum myndlistar.
Út frá stefnu sinni, um að sýna fjölbreytni textílvinnubragða í myndlist í dag, ákvað sýningarnefnd einnig að bjóða þremur alþýðulistamönnum sem vinna í textíl að taka þátt í sýningunni. Í því skyni var leitað til Níelsar Hafstein, forstöðumanns Safnasafnsins á Svalbarðsströnd, sem brást vel við beiðni nefndarinnar. Auglýsing um þátttöku á sýningunni var send út á Netinu á Norðurlöndunum. Áhuginn reyndist afar mikill og auglýsingunni var dreift víðar á Netinu. Umsóknir bárust frá 29 löndum, frá 283 listamönnum, þar af 46 Íslendingum.
Skipuð var dómnefnd til að fara yfir umsóknir og leggja til val á listamönnum á sýninguna. Erfitt reyndist að velja og hafna en áhersla var lögð á fjölbreytta og heilsteypta sýningu þar sem verk gátu spilað saman. Að endingu valdi dómnefndin 19 listamenn úr þessum hópi, 13 Íslendinga og 6 útlendinga. Þegar orðinu textíll er flett upp í orðabók merkir það klæði, ofið eða prjónað efni. Í samtímanum hefur orðið öðlast víðari merkingu. Það getur átt við tækni, útlit, efni og síðast en ekki síst hugmynd. Það er í þessum víðari skilningi sem við horfum á textíl í þessari sýningu.
Á seinustu árum hefur textíll átt vissa endurkomu inn í myndlistarheiminn þar sem myndlistarmenn af hvaða toga sem er hafa í auknum mæli notað textíl á einhvern hátt í sinni myndlist. Þetta eru listamenn sem ekki líta á sig sem textíllistamenn í þeim skiliningi sem lagður hefur verið í orðið. Því er eins og einhver ósýnilegur múr hafi fallið og fólk sé fyrir vikið óhrætt við að nota textíl í verkum sínum þegar hann þjónar hugmyndum þeirra. Oft er talað um 30 ára hringrás tísku eða strauma í menningu samtímans.
Um 30 ár eru síðan femínisminn og textíllistin náði hámarki í myndlistarheiminum en eftir það dró hratt úr þessari bylgju. Það er því eðlilegt, út frá 30 ára reglunni, að nú skuli textíllinn ganga í gegnum nýtt skeið endurnýjunar. Einnig getur verið að textíll sé nú orðinn sýnilegri sem mótvægi við tölvu- og tækninotkunina sem tröllriðið hefur Vesturlöndum hin síðari ár. Nú er eins og fólk hafi þörf fyrir sækja í eitthvað efniskenndara og hægara. Endurkoma textílsins er þó ef til vill ekki aðeins mótvægi við tækni og hraða nútímans, heldur einnig leit að varanlegum gildum.
Almennt óöryggi eftir atburðina 11. september árið 2001 hefur leitt til endurmats á öllum sviðum. Þetta endurmat endurspeglast ekki aðeins í leit að varanlegri lífsgildum heldur einnig í leit að varanlegri og sannari efnislegum verðmætum; hlutum sem tekur tíma að búa til og eru einstakir ólíkt hraðsoðinni fjöldaframleiðslu. Enn önnur skýring á endurkomu textílsins gæti verið sú að margir af þeim myndlistarmönnum sem nota textíl í dag voru einnig einfaldlega ekki komnir til vits og ára þegar textíllist var í hámarki, þeir leggja allt aðra merkingu í textíl og orðið textíllist en fyrri kynslóðir.
Verkin í þessari sýningu eiga það flest sameiginlegt að vera unnin á undanförnum árum og fjalla í sameiningu á fjölbreyttan hátt um textíl. Þau varpa ljósi á nýjar og spennandi hliðar miðilsins. Sum teygja þemað svo langt að margar spurningar vakna: Slitnar þráðurinn? Hvað er textíll? Er það efnið? Er það tæknin? Er það hugmynd? Þetta verður hver og einn að ákveða fyrir sig, eða skipta slíkar skilgreiningar kannski engu máli?
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.