30. september 2020 - 20:00

Gígja Jónsdóttir: Nánd í þremur þáttum og grand finale - Þáttur II

Gígja Jónsdóttir: Nánd í þremur þáttum og grand finale - Þáttur II
Staður viðburðar: 
Internetið, Zoom

Nánd í þremur þáttum samanstendur af gjörningum og innsetningum sem spretta upp víðsvegar um borgina. Verkið kannar mörkin milli almanna- og einkarýmis, tabúa og tilfinninga og fagnar hinni sammannlegu þörf fyrir nánd á fordæmalausum tímum.
 
2. þáttur: Gjörningur á Zoom á vefnum, áhorfendur geta nálgast hlekk HÉR - miðvikudagur 30. september kl. 20
 
3. þáttur: Þátttökustöðvar á Hlemmi, Kringlu, Granda og Mjódd - 12.–18. október, allan sólarhringinn
 
Grand Finale: Arnarhóll (þátttökugjörningur, nánar auglýst síðar) - sunnudagur, 18. október kl. 15
 
Gígja Jónsdóttir (f. 1991) nálgast viðfangsefni sín í gegnum ólíka miðla svo sem gjörninga, videó, tónlist og innsetningar. Mannveran og umhverfi hennar í sviðsetningu og raunveru er hennar helsta þema sem og samtalið og sambandið við áhorfandann. Gígja lauk meistaranámi í myndlist frá San Francisco Art Institute vorið 2018. Hún útskrifaðist úr Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2016 og af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands árið 2013.

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

 

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0