Leiðsögn listamanna: Eva Ísleifs og Rebecca Erin Moran
Leiðsögn með Evu Ísleifs og Rebeccu Erin Moran sem eiga verk á sýningunni Iðavöllur.
Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.
Yfirskrift sýningarinnar er Iðavöllur. Titillinn er fengið að láni úr Völuspá og kemur þar tvisvar við sögu. Iðavöllur er staðurinn þar sem æsir hittast við frumsköpun heimsins og koma síðan aftur saman á eftir Ragnarök til þess að skapa nýja heimsmynd. Hafnarhúsið tekur á sig hlutverk slíks Iðavallar sem vettvangur skapandi listamanna í hringiðu umbreytinga við upphaf nýrrar þúsaldar.
Val listamanna ræðst af samspili þess með hvaða hætti þau bregðast við samtímanum og um leið hvernig sjónarhorn þeirra hefur áhrif á sjónarhorn áhorfenda. Um er að ræða listamenn sem mótað hafa listalífið hér á landi í upphafi nýrrar aldar. Þessi kynslóð er sérstök fyrir þau tímamót sem hún upplifir: Hún fellur á milli X og Y kynslóða, í árdaga þúsaldarkynslóðarinnar. Listamennirnir muna eftir heiminum án internets og snjallsíma, upplifa efnahagshrunið, taka inn MeToo byltinguna, skynja mörk jarðsögulegs tíma og mannlífstíma og horfast í augu við hamfarahlýnun. Þau taka þátt í uppbyggingu listalífs sem er að fagvæðast með tilkomu listaháskóla, alþjóðlegra gallería og útgáfu listasögunnar. Þau eru fulltrúar kynslóðar sem tekst á við aukinn hraða, meira upplýsingaflæði, óljósari landamæri, reikult kyngervi, breytt samskiptamynstur, nýja tækni – allt á meðan þau muna á eigin skinni það sem áður var. Þau upplifa endalok heimsins í vissum skilningi og leggja sitt af mörkum við nýtt upphaf.
Eva Ísleifs (f. 1982) hefur aðsetur bæði í Reykjavík og í Aþenu. Hún útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2008 og lauk MA prófi í skúlptúr frá Listaháskóla Edinborgar árið 2010. Árið 2016 stofnaði hún, í samvinnu við N. Niederhauser og Z. Hatziyannaki, A - DASH, sem er listamannarekið sýningar- og stúdíórými í Aþenu. Þar hefur hún stýrt verkefnum og alþjóðlegir listamenn dvalið. Eva er auk þess meðstofnandi og skipuleggjandi Staðir/Places á Vestfjörðum.
Rebecca Erin Moran (Hún/hán, f. 1976), er kynsegin amerísk-íslenskur listamaður sem býr á milli Reykjavíkur og Berlínar. Frá útskrift hefur Rebecca haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda sýninga á Íslandi, Evrópu og í Norður Ameríku. Hán fagnar núningum í tilviljunarkenndum millirýmum og hugmyndinni um hverfugleika og endurtekningu. Til þess notar hán oft innsetningar og efni sem aðlagast yfir tíma, þróast og eru á stöðugri hreyfingu.