16. október 2022 - 14:00
16. október 2022 - 15:00

Leiðsögn listamanns: Jæja

Guðjón Ketilsson myndlistarmaður. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Guðjón Ketilsson myndlistarmaður verður með leiðsögn um sýninguna Jæja á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 16. október kl. 14.00 og 15.00.

Skráning kl. 14 HÉR kl. 15  HÉR .

Á yfirlitssýningunni Jæja um listferil Guðjóns er von á ýmsu. Þar má sjá skúlptúra samsetta úr fundnum húsgögnum sem hann hefur meðhöndlað á sinn einstaka hátt, fínpússaða trémuni sem líkjast fáséðum nytjahlutum á minjasafni, hárnákvæmar teikningar af líkamspörtum, hús og byggingar af öllum gerðum, samsafn af drasli sem hann hefur viðað að sér og raðað upp í eina heild, ljósmyndir af uppröðuðum munum og fatnað – allskonar fatnað útskorinn í tré, eins og skó, lendarskýlur og hatta. Öll eru verkin á mannlegum skala, þau spretta úr samspili hugar og handar og virka eins og framlenging á manneskjunni.

Guðjón Ketilsson er fæddur 1956 og er sjötti listamaðurinn sem valinn er til þátttöku í sýningaröð Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum, þar sem farið er yfir feril lykilpersóna í íslensku listalífi. Hvert og eitt þeirra er valið með tilliti til einstaks framlags þeirra og sérhæfingar á sínu sviði, bæði hvað viðvíkur miðlum, aðferðum og viðfangsefnum. Slík stöðutaka á sér stað í framsetningu lykilverka frá ólíkum tímum í Vestursal Kjarvalsstaða og útgáfu sýningarskrár þar sem fjallað um ferilinn í samhengi listasögunnar og samtímans.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.