Kaffihúsið á Kjarvalsstöðum opnað á ný eftir endurbætur

Kaffihúsið á Kjarvalsstöðum. Ljósmynd: Hildur Inga Björnsdóttir.

Marentza Poulsen og starfsfólk hennar tekur brosandi á móti gestum á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum sem hefur verið opnað á ný eftir viðamiklar endurbætur.

Gestir Kjarvalsstaða geta nú gætt sér á gómsætum veitingum af glænýjum matseðli. Um helgar verður borinn fram dögurður af bestu gerð, á barnum verður gleðistund alla daga milli 15.30 og 16.30 og fyrstu helgina í hverjum mánuði verður boðið upp á lifandi tónlistarflutning og „te fyrir lengra komna“ – betur þekkt sem high tea.

Á Kjarvalsstöðum má nú sjá verk eftir tvo af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar, þau Louisu Matthíasdóttur og Jóhannes S. Kjarval. Í Hugmyndasmiðjunni geta börn virkjað sköpunarkraftinn, teiknað og leikið sér og í safnversluninni má finna allskyns dýrgripi, bækur og nytjahluti.

Kjarvalsstaðir eru staðsettir á miðju Klambratúni sem er eitt af vinsælustu útivistarsvæðum borgarinnar. Á góðviðrisdögum er hægt að tylla sér út með veitingar og njóta þess besta sem Reykjavík hefur að bjóða. Safnið er opið alla daga milli kl. 10-17.00.

Velkomin á Kjarvalsstaði!