Listasafn Reykjavíkur er lifandi og framsækið listasafn þar sem tækifæri gefst til að kynnast fjölbreytileika myndlistar og öðlast dýpri skilning á sögulegu, félagslegu, menningarlegu og listrænu samhengi sköpunarverka listamanna.
Listasafn Reykjavíkur er vettvangur söfnunar, rannsókna og miðlunar á íslenskri myndlist. Safnið hefur ríkar samfélagslegar skyldur sem lúta að því að veita aðgang að sögulegum jafnt sem samtímalistaverkum með það að markmiði að auka menningarlæsi og vitund um gildi myndlistar. Listasafn Reykjavíkur bregst ekki því hlutverki sínu að ögra og fræða um samhengi myndlistar og markmið listamanna með verkum sínum.
Í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni eru reglulega haldnar sýningar á verkum eftir þrjá af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, Erró, Kjarval og Ásmund Sveinsson.
Safnið býður jafnframt upp á fjölbreyttar innlendar og alþjóðlegar sýningar á nútíma- og samtímalist eftir virta íslenska og erlenda listamenn. Safnið er einnig vettvangur fyrir ungt og upprennandi hæfileikafólk. Sýningar Listasafns Reykjavíkur spanna allt frá hinu sögulega til samtímans og frá hinu hefðbundna að ystu mörkum listarinnar.
Sýningar safnsins standa vanalega í um þrjá til fjóra mánuði en nýjar sýningar eru opnaðar í upphafi árs, á vorin og á haustin. Verk safnsins eru einnig til sýnis í opinberum byggingum og á opnum svæðum víða um borgina. Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með listaverkaeign borgarinnar, þar á meðal útilistaverkum. Safnið hefur í fórum sínum mörg af þekktustu verkum íslenskra listamanna en í heildarsafneign þess eru rúmlega sautján þúsund verk.
Fjölbreytt menningarstarfsemi er í safninu en árlega eru yfir hundrað viðburðir á vegum þess, allt frá fyrirlestrum og málþingum til óhefðbundins tónleikahalds. Listasafn Reykjavíkur er í samstarfi við fjölmargar hátíðir og má þar nefna Listahátíð í Reykjavík, Menningarnótt, Hönnunarmars, Iceland Airwaves og Safnanótt.
Safnfræðsla er mikilvægur þáttur í starfseminni en á hverju ári heimsækja um þrettán þúsund grunnskólanemar safnið.