Miðlun

Grunnstef í miðlun Listasafns Reykjavíkur er að allir geti tengst myndlist í fortíð og samtíma á eigin forsendum. Listasafnið er vettvangur rannsókna og fræða en ekki síður uppgötvunar og upplifunar. Í fjölbreyttu miðlunarstarfi safnsins og viðamikilli dagskrá er komið til móts við ólíka hópa samfélagsins. Útgangspunkturinn eru sýningar, safneign og sérþekking innan Listasafns Reykjavíkur. Markmiðið er að skapa borgarbúum og öðrum gestum innihaldsríkar og ánægjulegar stundir með myndlist.

Skipulag miðlunar í Listasafni Reykjavíkur tekur m.a. mið af Menningarstefnu Reykjavíkurborgar 2021-2030, aðalnámskrá grunnskóla og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Guli bakpokinn fyrir fjölskyldur

Guli bakpokinn er fullur af skemmtilegum hlutum, sem börn og fjölskyldur geta notað til að njóta sýninga í Listasafni Reykjavíkur enn betur saman. Bakpokann er hægt að fá lánaðan í móttöku safnsins fyrir valdar sýningar meðan á heimsókn stendur yfir.

App: Útilistaverk í Reykjavík / Reykjavik Art Walk

Listasafn Reykjavíkur gaf út app árið 2019, á ári útilistaverka í safninu, með upplýsingum um öll útilistaverk í Reykjavík. Í appinu eru einnig hljóðleiðsagnir fyrir göngu og hjólatúra og skemmtilegur leikur í þremur þyngdarstigum. Það er því tilvalið til skemmtunar og fróðleiks bæði inni og úti.

Leikum að list

Leikum að list er yfirskrift fjölskyldudagskrár Listasafns Reykjavíkur. Þar eru börn sérstaklega boðin velkomin í safnið ásamt foreldrum sínum til þess að skoða og upplifa myndlist í gegnum leiki og skemmtilegar umræður. Boðið er upp á fjölskylduleiðsagnir sem sniðnar eru að yngri áhorfendum um sýningar í öllum safnhúsunum.

Nína Sæmundsson, Hafmeyjan. Ljósmynd: Erik Hirt.

Höggmyndagarðurinn Perlufesti var opnaður þann 19. júní 2014 en hann er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar. Hann er staðsettur í suðvesturhorni Hljómskálagarðsins.

Friðarsúlan, ljósmynd Ragnar Th. Sigurðsson

Friðarsúlan í Viðey er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið. Verkið er í formi „óskabrunns“ en á hann eru orðin „Hugsa sér frið“ grafin á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.

Hallsteinsgarður

Árið 2013 tók Listasafn Reykjavíkur við gjöf Hallsteins Sigurðssonar myndlistarmanns til Reykvíkinga. Um var að ræða 16 höggmyndir úr áli sem Hallsteinn kom fyrir í landi Gufuness á árunum 1989 til 2012 og standa á hæð austan við gömlu áburðarverksmiðjuna í Gufunesi.