Bóka skólahóp

 

Móttaka skólahópa

Mánudaga – föstudaga frá 8.30-16.30

Hafðu samband

s. 411 6400
hopar.listasafn@reykjavik.is
listasafnreykjavikur.is

Athugið að bóka þarf skólahóp með minnst viku fyrirvara.

Hér er hægt að bóka heimsóknir á safnið og safnfræðslu fyrir skólahópa á öllum skólastigum. Vegna Covid-19 er tekið á móti skólahópum skv. gildandi tilmælum sóttvarnaryfirvalda og skólayfirvalda.

Skólinn á listasafn

Listasafn Reykjavíkur er starfrækt á þremur stöðum í Reykjavík – Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum v/Klambratún og Ásmundarsafni v/Sigtún.

Við bjóðum öllum nemendum á hvaða skólastigi sem er upp á ókeypis safnfræðslu um allar sýningar. Í hverri heimsókn reynum við að skapa vettvang fyrir nemendur til að taka þátt í umræðum þar sem hver og einn fær tækifæri til að tjá sig um eigin upplifun og hlusta á aðra. Við getum hæglega aðlagað heimsóknina þeim áherslum sem hver hópur óskar eftir eða boðið almenna leiðsögn um sýningar og jafnvel útilistaverk.

Á hverju ári býður safnið upp á fjölda sýninga  með verkum frá ýmsum tímum. Myndlist er sett í samhengi sem ein leið til þess að kanna heiminn í kringum okkur. List hefur þýðingamikið hlutverk í samfélagi og menntun. Með því að skoða myndlist þjálfum við okkur í gagnrýnni hugsun og hæfileika okkar til að eiga skoðanaskipti sem eru okkur nauðsynlegt veganesti í lífinu. Markmið þessu tengd er að finna í Aðalnámskrám allra skólastiga, menningarstefnu Reykjavíkurborgar og Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, og því sjálfsagður réttur barna á öllum aldri að fá að njóta lista og upplifa myndlist á eigin forsendum í samræmi við aldur og þroska.

Við fögnum skólahópum á öllum aldri sem vilja koma í safnið, með eða án leiðsagnar safnkennara. Við óskum þó eftir því að allir hópar láti vita af komu sinni með fyrirvara. Safnkennarar okkar geta tekið á móti hópum virka daga kl. 08.30–16.30 Hámarksfjöldi nemenda í hóp eru u.þ.b. 25 nemendur. Heimsókn með safnfræðslu fyrir nemendur tekur ríflega eina kennslustund en hægt er að aðlaga hana eftir þörfum hópsins. Safnkennarinn kynnir valin verk á sýningum, hvetur til umræðu og býður gjarnan upp á létt verkefni inni í sýningarsal. Fyrir heimsókn er gott fyrir okkur að vita hvort og þá hvernig hópurinn sé undirbúinn, hvort óskað sé eftir áherslu á ákveðið viðfangsefni eða að tengja skuli við sérstakan hluta námskrár.

Listasafn í skólann

Grunnskólum stendur til boða að fá sérhannaðar fræðslusýningar að láni til sín í skólana. Um er að ræða tvær kistur sem opnast í lítið sýningarrými. Þetta eru færanlegar einingar sem hægt er að setja upp í kennslustofu eða opnu rými í skólanum. Flökkusýningarnar eru í sérhönnuðum kistum á hjólum sem eru 180 cm á hæð, 70 cm á breidd og 165 cm á lengd þegar þær eru lokaðar, en ca 8m2 rými þegar þær eru opnar og innihalda u.þ.b. 8-10 listaverk (frummyndir).  Hver sýning er sett upp í tveimur kistum sem raðast saman og mynda þannig lítið listasafnsrými í skólanum.

Val stendur á milli tveggja sýninga og fylgja þeim verkefni fyrir nemendur (sjá hér fyrir neðan). Boðið er upp á kynningu safnkennara á sýningu og verkefnum fyrir starfsfólk. Flökkusýningar eru sendar í grunnskóla Reykjavíkur að kostnaðarlausu. Öðrum skólum standa þær gjarnan til boða gegn sendingarkostnaði en leiðsögn safnkennara fylgir frítt með á Reykjavíkursvæðinu. Hægt er að hafa sýningarnar að láni í skólunum frá vikutíma upp í mánuð.

Vinsamlegast bókið flökkusýningar hér.

Vídeó með leiðbeiningum um hvernig á að bóka skólahóp.