Viðbótarframlag vegna greiðslna til listamanna samþykkt
Borgarráð samþykkti í gær tillögu um viðbótarframlag til Listasafns Reykjavíkur upp á 8,5 milljónir króna vegna nýrra verklagsreglna safnsins um greiðslur til myndlistarmanna. Verklagsreglurnar taka gildi um áramót. Upphæðin tekur mið af þeim sýningum sem fyrirhugaðar eru á næsta ári.
Undanfarið hefur verið unnið að nýjum verklagsreglum fyrir Listasafn Reykjavíkur um greiðslur til myndlistarmanna vegna þátttöku í sýningum og vinnu við eigin sýningar innan safnsins. Tillögur að verklagsreglum sem nú hafa litið dagsins ljós eru unnar í samstarfi við Bandalag íslenskra listamanna, líkt og mælst er fyrir um í aðgerðaráætlun menningar- og ferðamálaráðs vegna menningarstefnu Reykjavíkurborgar. Tillögurnar hafa verið kynntar stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM, sem hefur lýst yfir ánægju sinni og styður verklagsreglurnar heilshugar.
Markmiðið er að tryggja að listamenn fái greitt fyrir þátttöku í sýningum og það vinnuframlag sem innt er af hendi í tengslum við eigin sýningar. Verklagsreglunum er jafnframt ætlað að vera gegnsæjar, en í útreikningum er meðal annars miðað við starfslaun listamanna og tímagjaldskrá SÍM. Til að mæta þeim kostnaði sem nýjar verklagsreglur hafa í för með sér fyrir safnið samþykkti borgarráð að hækka framlög til safnsins fyrir árið 2018 um 8,5 m.kr.
Með þessari samþykkt er Listasafni Reykjavíkur gert kleift að auka stórlega við þær greiðslur sem listamenn fá fyrir að sýna í safninu og komið til móts við sjálfsagðar kröfur þeirra um auknar greiðslur og viðurkenningu á vinnuframlagi þeirra.