Nýtt útlit Listasafns Reykjavíkur tilnefnt til Beazley hönnunarverðlaunanna 

Hönnunarstofan karlssonwilker hefur verið tilnefnd til Beazley hönnunarverðlaunanna fyrir nýtt útlit Listasafns Reykjavíkur. Það er hið virta Design Museum í London sem stendur fyrir verðlaununum í tíunda sinn, en á morgun, 18. október, opnar sýning í safninu á tilnefningunum. Samtímis verður opnað fyrir kosningar um bestu hönnunina en sýningin stendur fram í janúar 2018, þegar tilkynnt verður um vinningshafa.

Hjalti Karlsson, annar stofnandi hönnunarstofunnar karlssonwilker, sem staðsett er í New York, er grafískur hönnuður, fæddur árið 1967. Hann lærði grafíska hönnun í Parsons listaskólanum í New York og hefur búið og starfað þar í borg árum saman. Karlssonwilker hönnunarstofan hefur margoft hlotið verðlaun fyrir hönnun sína.

Tilnefningar Design Museum í ár eru sextíu talsins en tilnefnt er í sex flokkum; Arkitektúr, stafrænni hönnun, tískuhönnun, grafískri hönnun, vöruhönnun og hönnun á samgöngum.