Áttu mynd af Maó eftir Erró?

Listasafn Reykjavíkur kallar eftir upplýsingum frá almenningi um klippimyndir eða málverk eftir Erró sem sýna Maó, fyrrverandi leiðtoga Kína. Bæði er óskað eftir upplýsingum um verkin í skráningarskyni en einnig kemur til greina að safnið fái verk að láni fyrir sýningu sem til stendur að verði opnuð 1. maí 2019. Myndirnar eru frá árunum 1972-1980 og sýna Maó og félaga hans í mismunandi borgum í heiminum, m.a. Reykjavík. 

Þeir sem telja sig eiga slík verk eða vita um slík verk eru beðnir um að hafa samband við Sigurð Trausta Traustason, deildarstjóra safneignar og rannsókna - sigurdur.trausti.traustason hjá reykjavik.is eða í síma 820 1203.
 

Listasafn Reykjavíkur varðveitir um 4.000 listaverk eftir Erró. Upphafið að því var að árið 1989 gaf Erró Reykjavíkurborg stórt safn verka sinna, um 2.000 talsins. Í því safni er meðal annars að finna málverk, vatnslitamyndir, grafíkverk, skúlptúra, klippimyndir og önnur listaverk sem spanna allan feril listamannsins allt frá æskuárum. 

Auk listaverkanna gaf Erró borginni umfangsmikið safn einkabréfa og annarra gagna sem snerta listferil hans. Þessar ríkulegu heimildir hafa mikið gildi fyrir allar rannsóknir sem snerta listamanninn Erró og samtíma hans. 

Safnið hefur vaxið jafnt og þétt síðustu árin því að Erró hefur haldið áfram að bæta við gjöfina og keypt hafa verið verk í safnið sem telur nú um 4.000 listaverk.