Fjölbreytt dagskrá hátíðarinnar
Dagskrá Listasafns Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð
HAFNARHÚS
Sýning á verkum barna úr Landakotsskóla
ER MYNDLIST STÆRÐFRÆÐI? – ER STÆRÐFRÆÐI MYNDLIST?
OPNUN föstudag 12. apríl kl. 13.00
Nemendur Landakotsskóla heimsækja safnið og vinna með tengsl stærðfræði og myndlistar út frá sýningu Önnu Guðjónsdóttur, vikuna sem Barnamenningarhátíð stendur. Nemendur upplifa verk Önnu, sem er innsetning sem byggir á samspili hins tvívíða, málaðs flatar og þrívíðs, raunverulegs rýmis. Afrakstur vinnunnar þróast út vikuna og myndar saman listaverk sem verður til sýnis á safninu á hátíðinni. Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á meðan á Barnamenningarhátíð stendur yfir.
Æskuverk Errós – sýning á 3. hæð
Á meðan á Barnamenningarhátíð stendur verður einstök sýning á æskuverkum Errós á þriðju hæð í Hafnarhúsi. Þar má sjá myndir teiknaðar og málaðar frá 8 ára aldri hins unga Errós þegar hann bjó á Kirkjubæjarklaustri, fram á unglingsár.
Tilraunasmiðja með Guðnýju Rúnarsdóttur
LÁTUM OKKUR SJÁ: KÖNNUM - SKOÐUM - LEIKUM - KLESSUM - REISUM
Laugardag 13. apríl kl. 13-15.00
Opin tilraunasmiðja þar sem Guðný Ragnarsdóttir sjónlistakennari og myndlistarmaður leiðir gesti Barnamenningarhátíðar í að kanna form og efnivið, reisa, festa og líma saman skúlptúra í anda þeirra sýninga sem eru í húsinu.
KJARVALSSTAÐIR
Samsýning Vogaskóla, Sæmundarskóla og Kelduskóla Víkur
Hljóðafl – Hreyfiafl
OPNUN þriðjudag 9. apríl kl. 17.00
Sýningin Hljóðafl - Hreyfiafl er samsýning þriggja skóla þvert á hverfi í Reykjavík; Vogaskóla í Vogahverfi, Sæmundarskóla í Grafarholti og Kelduskóla Vík í Grafarvogi. Inntak sýningarinnar byggir á orkunni í umhverfi okkar og hvernig hún hreyfir við skynjun okkar, sjónrænt, með hljóði og hreyfingu. Umfjöllunarefni sýningarinnar og inntak verkanna er að vera í samtali við umhverfið. Upplifun sýningargesta er einstaklingsbundin og gagnvirk því að gestirnir verða hluti þess afls sem hreyfir við verkunum.
Hljóðlistamaðurinn Finnbogi Pétursson heimsótti nemendur í skólana og ræddi verk sín og verk nemenda í undirbúningsvinnunni en Finnbogi hefur unnið á einstakan hátt með skynjun og áhrif hljóðs á efni eins og vatn og ljós í verkum sínum.
Umsjón með vinnu nemenda höfðu myndlistarkennararnir Guðrún Gísladóttir í Vogaskóla, Vilhelmína Thorarensen í Sæmundarskóla, Vilma Björk Ágústsdóttir í Kelduskóla – Vík og uppsetning sýningar var unnin í samstarfi við safnið.
Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á meðan Barnamenningarhátíð stendur yfir.
Barnalistasýning Dalskóla
DÝR OG FURÐUVERUR
OPNUN þriðjudag 9. apríl kl. 17.00
Nemendur Dalskóla sýna margvíslegar furðuverur á Listasafni Reykjavíkur Kjarvalsstöðum - stór, smá, góð eða grimm. Komdu ef þú þorir!
Umsjón með vinnu nemenda hafði Edda Ýr Garðarsdóttir myndlistarkennari og uppsetning sýningar er unnin í samstarfi við safnið.
Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á á meðan á Barnamenningarhátíð stendur yfir.
Skúlptúrsmiðja með Halldóri Ragnarssyni
ÚTIANDLIT – SKÚLPTÚRSMIÐJA
Laugardag 13. apríl kl. 12-15.00
Halldór Ragnarsson myndlistarmaður leiðir útilistaverkasmiðju á Barnamenningarhátíð á Kjarvalsstöðum, þar sem öllum krökkum er velkomið að taka þátt í að búa til áhugavert andlitsútilistaverk. Í ár er ár útilistaverka hjá Listasafni Reykjavíkur. Smiðjan verður að öllum líkindum úti.
ÁSMUNDARSAFN
Kira Kira hugleiðsluupplifun
LÁTUM OKKUR SJÁ: KIRA KIRA – PRISMA LJÓÐ
Sunnudag 14. apríl kl. 13-15.00
Tónskáldið Kira Kira leiðir ljósríka og róandi hugleiðsluupplifun innan um kraftana í verkum Ásmundar Sveinssonar í sýningunni „Undir sama himni“ fyrir börn og fjölskyldur, með tónum, samtali og spunamöntrum. Gestir fá tækifæri til að skynja skúlptúrsýningu Ásmundar á nýjan og notalegan hátt – í fjölbreyttri upplifun myndlistar, tónlistar og samveru. Töfrandi samverustund fyrir alla fjölskylduna.
GERÐUBERG – BREIÐHOLT
Hjólaleiðsögn milli útilistaverka
Laugardag 13. apríl kl. 11.00
Listasafn Reykjavíkur býður fjölskyldum upp á skemmtilega hjólatúraleiðsögn á Barnamenningarhátíð í samstarfi við Hjólafærni á Íslandi. Hjólað verður frá Ævintýrahöllinni í Gerðubergi kl. 11:00 um útilistaverkin í Breiðholti, en árið 2019 er ár útilistaverka hjá Listasafni Reykjavíkur.