Frítt inn í safnið á afmælisdegi Ásmundar

Frítt inn í safnið á afmælisdegi Ásmundar

Í tilefni af afmælisdegi Ásmundar Sveinssonar verður frítt inn á Ásmundarsafn mánudaginn 20. maí.

Ásmundur Sveinsson fæddist 20. maí árið 1893, fyrir 126 árum. Í tilefni fæðingardags hans býður Listasafn Reykjavíkur gestum frían aðgang að safninu. Þar stendur nú yfirlitssýning á verkum Ásmundar, einkum þeim sem skírskota til verka sem eru úti í almannarýminu, smærri útgáfur þeirra eða frummyndir. 

Einnig er sýning á verkum Brynhildar Þorgeirsdóttur sem einnig á verk í almannarými. 

Síðast en ekki síst verður búið að koma verkinu Hvítu fiðrildin eftir Ásmund fyrir í garðinum umhverfis safnið.

Í viðtali við Morgunblaðið árið 1968 sagðist Ásmundur reyndar kalla verkið Fljúga hvítu fiðrildin enda er verkið svo sannarlega á flugi. Það er eitt af þeim verkum sem Ásmundur gerði á síðari hluta ferils síns sem hafa þann eiginleika að þau eru hreyfanleg. En þetta fiðrildið blakar vængjunum snúa blöðkurnar í ytri hringnum því í hring.

Listaverkið hafði áður staðið á milli kúluhússins og skemmunnar í garði Ásmundarsafns. Það var tekið niður fyrir margt löngu þegar ástand þess var orðið mjög slæmt. En nú verður það reist aftur á ári útilistaverka í dagskrá Listasafns Reykjavíkur.

Viðgerð var í höndum Sveins Markússonar járnsmiðs í samstarfi við Viktor Smára Sæmundsson forvörð.