Sýningaropnun − Finnbogi Pétursson: Rið

Sýningaropnun − Finnbogi Pétursson: Rið

Sýning á nýju verki eftir myndlistarmanninn Finnboga Pétursson, Rið, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, miðvikudag 29. maí kl. 20.00.

Á einkasýningu sinni í A-sal Listasafns Reykjavíkur – Hafnahúsi sýnir listamaðurinn Finnbogi Pétursson nýtt verk sem er sérstaklega sniðið að sýningarrýminu. Á fjögurra áratuga ferli hefur Finnbogi unnið með skynjun og lagt áherslu á mörk sjónar og heyrnar. Hann hefur þróað ótal leiðir til þess að gera hljóðbylgjur sýnilegar, dregið fram tíðni efnis og rýmis og unnið með eðlisfræði umhverfisins. Á sýningunni í Hafnarhúsi eru hljóðbylgjur leiddar í stóra laug og gárur vatnsins endurkastast á veggi salarins í alltumlykjandi innsetningu. 

Innsetning Finnboga byggist á eðlisfræði hljóðs, vatns og ljóss. Listamaðurinn stýrir samspili þessara þátta þannig að sýningarsalurinn er allur undirlagður og áhorfandinn umvafinn verkinu hólf í gólf. Ferlið er ekki að fullu útreiknanlegt því náttúrufyrirbærin bregðast með ófyrirséðum hætti við ýmsum utanaðkomandi þáttum og þannig breytist upplifunin stöðugt. Safngestir eru ekki hlutlausir áhorfendur heldur þátttakendur sem skynja hljóð- og ljósbylgjur með öllum líkamanum og hafa áhrif á verkið með nærveru sinni.

Á sýningunni Rið heldur Finnbogi áfram með tilraunir sem spanna þrjá áratugi. Verk hans hafa verið til sýnis um víða veröld og eru í eigu fjölmargra opinberra safna og einkasafna. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001. Hér á landi má finna verk á opinberum vettvangi eftir listamanninn í húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Háskólanum í Reykjavík og í námunda við Vatnsfellsvirkjun á hálendinu.

Finnbogi Pétursson (1959) fagnar sextíu ára afmæli í lok ársins en hann tók þátt í sinni fyrstu sýningunni árið 1980 í Galleríi Suðurgötu 7. Hann lærði myndlist á árunum 1979-1983 við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og 1983 - 1985 við Jan Van Eyck Akademíuna, Hollandi. Finnbogi starfar með BERG Contemporary, Reykjavík og Gallery Taik Persons, Berlín.

Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.