Síðustu dagar sýninganna Alræði Fegurðar! og Blómsturheimar

Síðustu dagar sýninganna Alræði Fegurðar! og Blómsturheimar.

Sýningunum William Morris: Alræði fegurðar! og Sölvi Helgason: Blómsturheimar á Kjarvalsstöðum lýkur sunnudaginn 6. október.

Breski hönnuðurinn William Morris (1834-1896) var listamaður, hugsuður, rithöfundur og samfélagsrýnir og hafði mikil áhrif á samtíma sinn. Sýningin gerir skil fjölbreyttu ævistarfi Morris en hann fékkst bæði við hönnun, skáldskap og var framúrskarandi handverksmaður. Hann var sósíalískur aktívisti og hugmyndir hans um samfélag iðnbyltingarinnar þóttu byltingakenndar.  Á sýningunni eru auk frumteikninga af munstrum Morris; útsaumsverk, húsgögn, fagurlegar skreyttar bækur, flísar auk verka eftir samferðamenn Morris á borð við Dante Gabriel Rossetti.

Sölvi Helgason (1820-1895), eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun. Flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem fór á svig við mannanna lög og reglur og var hegnt fyrir með fangelsisvist.