Listaverk vikunnar: Undir friðar og landnámssól

Listaverk vikunnar: Undir friðar og landnámssól

Listaverk vikunnar er Undir friðar og landnámssól​ eftir Ásmund Sveinsson frá 1972-1974. Verkið er staðsett við Miklubraut. 

Verkið var fyrst gert árið 1972 og svo stækkað árið 1974 en Íslenska álfélagið pantaði verkið af listamanninum til að gefa íslensku þjóðinni í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Fyrst stóð það á Bæjarhálsi í Árbæ en var síðar flutt við Miklubraut gegnt Rauðagerði, þar sem það stendur nú.

Þetta verk er síðasta stóra verk Ásmundar og hét upphaflega Ljóð til fjallkonunnar. Hann lýsti verkinu svo: „Ég geri fjöllin að hörpum, set sólina í miðju og svo eru sumir sem segja mér – það er nú alveg óvart – að friðartáknið sé í sólinni líka.“ Verkið hlaut því fljótlega það nafn sem það ber í dag, Undir friðar og landnámssól, þar sem vísað er í friðartáknið.

Ásmundur Sveinsson (1893-1982) er einn af frumkvöðlunum í íslenskri höggmyndalist og var afkastamikill listamaður. Hann sótti innblástur í íslenskar sagnir og þjóðtrú og í form náttúrunnar en síðar urðu ýmsar tækninýjungar 20. aldar honum hugleiknar. Verkum hans hefur verið komið fyrir á opinberum stöðum víða um land og er það í anda hugmynda Ásmundar um að listin eigi ekki að vera fyrir fáa útvalda heldur hluti af daglegu lífi allrar alþýðu.

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.