Listaverk vikunnar: Köllun
Listaverk vikunnar er Köllun eftir Steinunni Þórarinsdóttir frá 2000. Verkið er staðsett við Kristskirkju á Landakotstúni.
Verk Steinunnar er minnisvarði um kærleiksríkt starf St. Jósefssystra sem störfuðu á Íslandi í meira en eina öld. Verkið er mynd af konu, gert úr pottjárni og gleri, og segir Steinunn grunnhugmyndina þá að signingin, sem sé sterkt tákn í kaþólskunni, gangi gegnum verkið. Gler myndar kross sem nær í gegnum verkið og þannig getur sólin skinið gegnum glerið og minnt á þá birtu sem listakonan segir að hafi einkennt störf systranna. Einnig segist Steinunn hafa leitast við að hafa verkið hógvært og látlaust eins og störf þeirra hafi jafnan verið.
Steinunn Þórarinsdóttir (f. 1955) hefur unnið að fígúratífum skúlptúr frá upphafi ferils síns. Verk Steinunnar hafa gjarnan tengst íslenskri náttúru sterkum böndum. Samtal mannsins við náttúruna, umhverfi sitt og samfélagið er leiðarstef í list hennar. Steinunn setur manneskjuna í öndvegi. Í upphafi mótaði hún mannsmyndir sínar einkum í leir en smám saman urðu járn, gler og steinsteypa áberandi efniviður. Mörg verka Steinunnar er að finna á opinberum vettvangi og sýna þau flest manneskju í fullri stærð sem ýmist býður náttúruöflunum birginn eða stendur hokin og umkomulaus og fær áhorfandann til að íhuga einmanaleika manneskjunnar.
Steinunn hefur á löngum ferli hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, meðal annars sæmdi forseti Íslands hana riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2009 fyrir framlag sitt til íslenskrar og alþjóðlegrar myndlistar.
Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Hlaðið niður snjallforriti safnsins, Útilistaverk í Reykjavík, ókeypis fyrir Android og IOS.