Sýningaropnun – Erró: Sæborg

Sýningaropnun – Erró: Sæborg

Sýningin Sæborg verður opnuð fimmtudaginn 6. febrúar kl. 20.00 í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur er sýningarstjóri sýningarinnar. Hún ávarpar gesti í Hafnarhúsinu þegar sýningin verður opnuð.

Á löngum ferli hefur myndlistarmaðurinn Erró (f. 1932) fengist við fjölbreytt viðfangsefni í málverkum sem skapað hafa honum orðstýr sem einn af leiðandi popplistamönnum Evrópu. Hann er þekktur fyrir verk þar sem ofgnótt myndheims samtímans er uppspretta hugleiðinga meðal annars um neyslusamfélagið, pólitík og samfélagsleg viðfangsefni hvers tíma.

Tækni og vísindaframfarir urðu Erró snemma innblástur í verk þar sem mætast hið mennska og hið vélræna. Hann skoðaði sérstaklega inngrip tækninnar í mannslíkamann og aðlögun mannslíkamans að vélinni. Verkin á sýningunni Sæborg vekja upp spurningar um mörk mannslíkamans og tækninnar.

Orðið sæborg er hljóðþýðing á enska orðinu cyborg. Það er tilbúið orð, klippt saman úr ensku orðunum cybernetics og organism. Á sama tíma og vísindamenn voru að þróa tæknina á bakvið sæborgina var Erró að vinna myndlistarverk um tengsl véla og fólks, iðulega með því að klippa saman myndir af fólki – oft konum – og vélum af ýmsu tagi.

Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, er sýningarstjóri sýningarinnar: „Ég hef alltaf verið heilluð af öllu því sem er á einhvern hátt öðruvísi og truflandi – jafnvel ógnandi. Þetta fann ég í hryllingi og seinna pönki og svo sæberpönki og sæborginni. Þegar ég var að vinna við sýninguna fannst mér ég vera eins og Frankenstein í dúkkulísulandi, annarsvegar minna þessar meca-myndir Erró á tilraunastofu Frankensteins og hinsvegar eru mörg verkanna, klippimyndirnar og samsetningarnar, áþekk dúkkulísum, þar sem verið er að klippa út manneskjur og hengja á þær dót.“