Listamenn um listamenn: Ilmur Stefánsdóttir
Athugið að vegna fjöldatakmarkana er skráning nauðsynleg. Þið getið gert það HÉR.
Í tilefni af sýningunni Gilbert & George: THE GREAT EXHIBITION hefur Listasafn Reykjavíkur leitað til nokkurra listamanna til að ganga með gestum um sýninguna og segja frá einstaka verkum og sýningunni út frá sínu sjónarhorni.
Listamannatvíeykið Gilbert & George eru eitt skapandi afl. Þeir hafa unnið saman í meira en fimm áratugi - einstök verk þar sem daglegt líf og myndlist sameinast í einu mengi. Þeir hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans og eru þekktir fyrir að ryðja braut gjörningalistar og nálgast einkalíf sitt sem listaverk. Þeir hafa ögrað ríkjandi borgaralegum hugmyndum um smekk og velsæmi og ekki síst stuðlað að breyttum viðhorfum til samkynhneigðra og annarra minnihlutahópa. Sýningin í Hafnarhúsinu veitir yfirgripsmikla sýn yfir feril Gilberts og George.
Listamaðurinn að þessu sinni er Ilmur Stefánsdóttir (f. 1969) sem býr og starfar í Reykjavík. Hún sækir innblástur úr hversdagsleikanum og skoðar tengslin milli fólks og hluta á performatívan hátt. Hún tekur gjarnan hversdagslega hluti úr samhengi og gefur þeim nýtt hlutverk hvort sem það er gagnlegt eða algerlega gagnslaust. Ilmur útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1995 og lauk mastersnámi í myndlist frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún þekkir því vel til borgarinnar og þess umhverfis sem Gilbert & George spretta úr og fjalla um ásamt því að þeir hafa verið mikill innblástur fyrir listasenuna í London.
Ilmur hefur haldið fjölda einka- og samsýninga og lagt stund á gjörningalist hérlendis og erlendis. Ilmur hefur hannað ýmsar leikmyndir og búninga í Þjóðleikhúsi, Borgarleikhúsi og víðar. Hún er einn stofnenda CommonNonsense hópsins sem setti m.a. upp Þríleik Hugleiks Dagssonar: "Forðist okkur", "Söngleikinn Leg" og "Baðstofuna", Heimilissirkusinn "Af ástum manns og hrærivélar", heimildaleikverkið "Tengdó" og rútugjörninginn "Routeopiu". Ilmur á verk í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Hafnarborgar.