24. september 2020 - 10:00 til 18. október 2020 - 23:00

Gunnhildur Hauksdóttir: Rottukór

Gunnhildur Hauksdóttir: Rottukór
Staður viðburðar: 
Kjarvalsstaðir

Rottur gefa frá sér sextán hljóð til að tjá hamingju á tíðni sem mannseyrað nemur ekki. Þær gefa hver annarri nöfn og leika samkvæmisleiki samkvæmt leikreglum sem þær tjá með hljóðum, enda er tilvera þeirra að mestu í myrkri. Með hliðsjón af tjáningu og félagslífi þeirra og ómmyndum af hljóði þeirra hefur Gunnhildur útbúið raddskrá fyrir mannsraddir og úr verður Rottukórinn. Sunnudaginn 27. september kl. 16:00 mun kvennakórinn Hrynjandi ljá rottunum rödd sína undir stjórn Jóns Svavars Jósepssonar í porti Kjarvalsstaða. Einnig mun Rottukórinn kynna til leiks höggmynd - og verkið verður sýnilegt og heyranlegt 24 tíma sólarhrings út sýningartímabilið.
 
Gunnhildur Hauksdóttir (f. 1972) býr og starfar í Reykjavík og að hluta í Berlín. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og lauk MFA námi við Sandberg Instituut í Amsterdam, Hollandi 2006. Hún vinnur jöfnum höndum með gjörninga, teikningar, innsetningar, hljóð- og myndbandsmiðla og blandar þessu gjarnan saman. Umfjöllunarefni hennar ná yfir kerfi og mynstur túlkuð í raddbeitingu og hreyfingum. Verkin velta upp spurningum um mörk mennsku, og um mynstur í menningu á breiðum grundvelli.

Listasafn Reykjavíkur efnir á haustdögum öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan og nýstárlegan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tækni samtímans býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinveran vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður. Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist. Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum safnsins eða dagskrársíðu þess.

 

Sýning: 
Verð viðburðar kr: 
0