18. mars 2021 - 20:00

Sýning myndarinnar Keep Frozen: Hulda Rós Guðnadóttir

Keep Frozen: Hulda Rós Guðnadóttir
Staður viðburðar: 
Hafnarhús

Í tengslum við sýninguna WERK – Labor Move verður sýning á heimildarmyndinni Keep Frozen eftir Huldu Rós Guðnadóttur í fjölnotasal Hafnarhússins.

Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.

Keep Frozen er heimildarmynd um hóp verkamanna sem vinna við að afferma frystitogara. Þrátt fyrir að íslensk menning eigi fjölmargar sögur, ljóð og söngva af sjómönnum hefur lítið verið ort eða fjallað um erfiðisvinnu bryggjuverkamanna. Hér er á ferðinni saga um þrautseigju mannsins og hvernig sigrast má á verkefnum sem virðast óyfirstíganleg í byrjun.

Á einkasýningu sinni í A-sal Hafnarhússins beinir Hulda Rós Guðnadóttir sjónum að samfélagslegum viðfangsefnum í staðbundinni innsetningu. Innsetningin WERK – Labor Move er unnin sérstaklega fyrir salinn en Hafnarhúsið var upphaflega byggt sem vörugeymsluhús á hafnarbakkanum. 

Verkið samanstendur af þriggja rása kvikmyndaverkinu Labor Move, skúlptúrum er beintengjast kvikmyndaverkinu, og myndbandsupptöku af vinnu við samsetningu skúlptúranna í salnum sjálfum í aðdraganda sýningaropnunar. Til grundvallar sýningunni liggur skoðun á virkni hins marglaga alþjóðahagkerfis og er sjónarhorn hins kunnuglega og staðbundna tekið til þess að greina og varpa upp samhengi hér á landi við hið hnattræna. 

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.