Leiðsögn listamanns: Já/Nei
Auður Lóa Guðnadóttir verður með leiðsögn um sýningu sína Já/Nei í D-sal Hafnarhúss.
Athugið að skráning er nauðsynleg HÉR.
Auður Lóa (1993) fæst mest við skúlptúr og vinnur gjarnan með hversdagslegt myndefni og sterkt myndmál. Í verkum sínum leitast hún við að túlka hið óvænta, en almenna. Verkin, í samhengi við hvert annað, við umhverfi sitt, í samtali við miðil og efni, segja sögu, reyna að grafa holu í eitthvað óáþreifanlegt.
Á sýningunni Já/Nei er engu líkara en að gengið sé inn í leitarsögu listamannsins á internetinu. Í salnum ægir saman tugum skúlptúra sem vísa í sögu, samtíma, listasögu, dægurmenningu, pólitík og hið fyndna og undarlega. Listamaðurinn hefur fundið innblástur á ferðalögum sínum niður hinar ýmsu kanínuholur veraldarvefsins, vistað stafrænar myndir sem vekja hjá henni áhuga og undrun og endurskapað í þrívíðu minnisvörðum úr pappamassa.