Kjarvalsstaðir

Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun árið 1973 og er fyrsta byggingin hérlendis sem hönnuð er sérstaklega fyrir myndlist.
Á Kjarvalsstöðum eru reglulega sýningar á verkum Jóhannesar S. Kjarvals (1885 -1972) enda skipar hann sérstakan sess í íslenskri menningar- og listasögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar fyrr og síðar.

Þar eru jafnframt sýningar á málverkum og skúlptúrum eftir nafnkunna innlenda og erlenda meistara nútímalistar.

Gluggar hússins ná frá gólfi og upp í loft svo vel sést yfir Klambratún sem var sérstaklega hannað og skipulagt sem hluti af listrænni menningu Reykjavíkurborgar. 

Á veitingastaðnum á Kjarvalsstöðum Klömbrum Bistrø er upplagt að njóta útsýnisins og þeirra ljúffengra veitinga sem þar er á boðstólum. Veitingastaðurinn er opinn frá klukkan 10.00-17.00 alla daga vikunnar. Sími 411 6425. 

Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) skipar sérstakan sess í íslenskri menningarsögu sem einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Hann var goðsögn í lifanda lífi og í augum margra persónugervingur hins rómantíska listamannabóhems.

Kjarvalsstaðir, ljósmynd: Baldur Vilhjálmsson.

Kjarvalsstaðir eru staðsettir á Klambratúni, einu fárra útivistarsvæða í Reykjavík sem hannað hefur verið og skipulagt sem hluti af listrænni menningu borgar. Bygginguna teiknaði Hannes Kr. Davíðsson og var hún vígð árið 1973.

Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg safn af listaverkum og persónulegum munum árið 1968. Hluti gjafarinnar var sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verk verið keypt en einnig hafa ýmsir einstaklingar fært safninu ómetanlegar gjafir.