Veldu ár
Sirra Sigrún Sigurðardóttir: Flatland
Titill sýningarinnar vísar til samnefndrar bókar frá 1884 þar sem dregin er upp háðsádeila af stéttskiptu samfélagi með tungumáli stærð- og rúmfræðinnar. Á sýningunni tekur Sirra Sigrún upp leiðarstef bókarinnar og tengir við hugleiðingar um samtímann.
Viðfang sýningarinnar snýr að hugmyndum um hlutverk upplýsinga í samfélaginu, hvernig þær eru settar fram og notaðar. Birtingamyndir upplýsinga eru margvíslegar og grundvallast af ólíkum gildum sem takast á. Þær má nota sem tæki til að auka þekkingu eða sem kerfi til valdníðslu. Upplýsingar geta þjónað sem aflgjafi breytinga eða viðhaldið hugmyndinni um óbreytt ástand.
Í list sinni vinnur Sirra Sigrún með líkamlega og sjónræna skynjun áhorfandans þar sem efniviður verka hennar eru gjarnan tölulegar staðreyndir, vísindakenningar eða rannsóknir af ýmsum toga.
Sirra Sigrún Sigurðardóttir (f. 1977) nam myndlist við Listaháskóla Íslands og School of Visual Arts í New York. Hún hefur sýnt víða, bæði hér heima og erlendis. Sirra Sigrún er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.