Veldu ár
Carnegie Art Award 2002
Carnegie Art Award sýningin er nú haldin í fimmta skipti en í fyrsta skipti í sögu hennar á opnunarsýningin sér stað á Íslandi. Opnunarathöfninni og verðlaunaafhendingunni verður sjónvarpað beint frá Ríkissjónvarpinu kl. 18.00, 18. október en daginn eftir verður sýningin opin almenningi.
Handhafar Carnegie Art Award verðlaunanna fyrir árið 2002 eru danski listamaðurinn Troels Wörsel, sem hlýtur 500.000 S.kr., sænska listakonan Lena Cronqvist, sem hlýtur 300.000 S.kr. og danski listamaðurinn Tal R., sem hlýtur 200.000 S.kr. Auk þess er veittur sérstakur styrkur til listamanns af yngri kynslóðinni, 50.000 S.kr, en hann hlýtur sænski listamaðurinn David Svensson, sem er 28 ára að aldri. Listamennirnir munu þiggja verðlaunin úr hendi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra sem einnig opnar sýninguna.
Fulltrúar Íslands á sýningunni eru Georg Guðni, Katrín Sigurðardóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir en það eru samtals 25 listamenn sem verk eiga á sýningunni; valin úr hópi 119 listamanna sem tilnefndir voru í upphafi. Verðlaunahafinn Troels Wörsel er fæddur árið 1950 í Árósum, en flutti ungur til München þar sem hann tók þátt í þýsku málarabylgjunni á 9. áratugnum. Í dag býr hann í Toscana á Ítalíu.
Lena Cronqvist hefur starfað í Svíþjóð við góðan orðstír frá því á 7 áratugnum, en sló fyrst í gegn með umtalaðri sýningu í Stokkhólmi fyrir tæpum sjö árum. Expressjóníski listmálarinn Tal R. er 35 ára og hefur m.a. sýnt verk sín í Louisiana-safninu í Humlebæk, í Lundúnum og New York.Styrkþegi ársins, David Svensson, er yngsti listamaður sem hlotið hefur styrk Carnegie Art Award. Hann nam við Konunglega fagurlistaskólan í Stokkhólmi, en að auki hefur hann stundað framhaldsnám í málaralist í Málmey og Osló.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.