Veldu ár
Zilvinas Kempinas: Brunnar
Árið 2011 bjó Zilvinas Kempinas til sjálfstæðan skúlptúr þar sem fjöldi segulbandslengja flaksast kröftuglega í gusti frá öflugri viftu. Viftan er á hvolfi í miðju hrings og blæs loftinu niður. Þar sem kringlóttur málmumbúnaðurinn er aðeins opinn á hliðinni, þeyta viftuspaðarnir loftinu lárétt allt um kring. Í gustinum flaksast og bylgjast svartir segulbandsþræðirnir allt að mörkum hringsins – líkastir bárum sem brotna á sjávarströnd, eða öldum vatns sem skellur í sífellu á fyrirstöðu. Þetta er skúlptúr í „óhefðbundnum“ skilningi, tilviljunarkennd ummyndun segulbandanna breytir hinni sýnilegu mynd, hefur sig yfir efnið og lyftir verkinu upp í fjórðu víddina þar sem birtist ákveðin skynjun á tíma og hreyfingu í rými.
Á þessari sýningu magnar Kempinas upp óreglubundnar sveifluhreyfingar segulbandsræmanna og setur þær í innsetninguna Brunnar og notar til þess margar viftur. Hann meðhöndlar hverja viftu sem einstakt breytilegt fyrirbæri og endurtekur það til að láta í ljós hliðstæðan veruleika. Þetta er alheimur sem virðist búa yfir vissum líkindum sem umbreyta sér með tímanum og í rýminu.
Zilvinas Kempinas fæddist árið 1969. Hann útskrifaðist úr málaradeild Listaháskólans í Vilníus árið 1993, og með MFA-gráðu í samtengdum miðlum frá Hunter College í New York-borg árið 2002. Árið 2003, eftir einkasýningu í P.S.1. samtímalistamiðstöðinni í New York, var honum boðið að taka þátt í fjölda sýninga í Bandaríkjunum og víðar. Hann hlaut Calder-verðlaunin frá Calder-stofnuninni árið 2007, og var fulltrúi Litháens á 53. Feneyjatvíæringnum árið 2009. Hann býr og starfar í New York-borg.
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.