Veldu ár
Annað auga - Ljósmyndaverk úr safneign Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur
Sýningunni er ætlað að gefa góða mynd af þeim megin áherslum, straumum og stefnum sem birst hafa í ljósmyndaverkum samtíma myndlistarmanna frá síðari hluta 7. áratugarins fram til dagsins í dag. Þau gefa þó ekki tæmandi mynd af heildinni enda endurspeglar listaverkasafn þeirra Péturs og Rögnu persónulegan áhuga þeirra á verkum ákveðinna listamanna en ekki almennt, listsögulegt yfirlit.
Lögð er áhersla á að sýna breiða og fjölbreytilega notkun ljósmynda í myndlist og sýna fram á mismunandi afstöðu til notkunar á miðlinum, og merkingarmöguleika hans. Sýningunni er skipt upp í fjóra meginþætti, sem segja má að séu ríkjandi í ljósmyndaverkum samtímamyndlistarmanna í alþjóðlegu samhengi.
Þessir þættir eru:
Ljósmyndin sem gjörningatengdur miðill -hér eru skoðuð þau viðfangsefni sem listamenn hafa sviðssett sérstaklega fyrir myndavélina, varpa ljósi á karakter eða eru myndræn skjalfesting á framkvæmd. Þessir þættir innan ljósmyndunar spruttu að nokkru leyti uppúr ljósmyndaheimildum um gjörninga frá 7. og 8. áratugnum.
Umhverfi / ástand -úr þessum verkum má lesa ytra umhverfi sem myndlíkingu fyrir tilfinningalegt ástand. Listamaðurinn skráir heimild um eða býr til ástand þar sem upplifun af rými innan myndarammans hefur áhrif á það hvernig við upplifum hugsanlega sambærilegt rými utan hans.
Ljósmyndin sem tímatengdur skúlptúr -hér er viðfangsefnið eðli ljósmyndamiðilsins sem tímamiðils og þrívíðir möguleikar hins tvívíða forms kannaðir. Jafnframt eru hér verk sem fanga brot af tímatengdu ferli.
Vísanir / tengingar -listamaðurinn skráir heimild um, endurskapar sögulegan atburð eða þætti í menningunni sem hann vill skoða og nálgast eða fá fjarlægð á í gegnum linsu vélarinnar. Verkin fá áhorfandann til að íhuga eigin tengsl milli samtímans og hins sögulega.
Listaverkasafn Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur telur um 1.000 verk samtímamyndlistarmanna frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu, þar af eru um 100 ljósmyndaverk.
Sýningarstjóri: Birta Guðjónsdóttir
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.