Sýningarstjóraspjall um sýninguna Júlíana Sveinsdóttir og Ruth Smith: TVÆR STERKAR
Hrafnhildur Schram og Helga Hjörvar ræða við gesti um sýninguna Júlíana Sveinsdóttir og Ruth Smith: TVÆR STERKAR sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum.
Á sýningunni gefur að líta verk málarana Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966) og hinnar færeysku Ruthar Smith (1913-1958). Listakonurnar eiga það sameiginlegt að báðar fæddust og ólust í litlum einangruðum samfélögum sem voru að feta sín fyrstu spor á listabrautinni í upphafi 20. aldarinnar, annars vegar á Heimaey og hinsvegar á Suðurey í Færeyjum.
Sýningin var opnuð á Kvennadeginum 19. júní 2015, í tilefni af því að hundrað ár eru liðin frá því íslenskar og færeyskar konur fengu kosningarétt. Hér er um að ræða farandsýningu sem ferðast áfram til Listasafns Færeyja í Þórshöfn, þar sem hún verður opnuð 11. september 2015 en síðari viðkomustaðurinn verður Norðurbryggja, Kaupmannahöfn með opnun 14. nóvember 2015.
Sýningarstjóri sýningarinnar er listfræðingurinn Hrafnhildur Schram en Helga Hjörvar var forstjóri Norðurlandahússins í Þórshöfn um árabil. Sýningarstjóraspjallið hefst kl. 15. Aðgangseyrir er kr. 1.400, ókeypis fyrir Menningarkortshafa, eldri borgara (70 ára og eldri) og 18 ára og yngri.