Geimþrá í Ásmundarsafni föstudaginn 16. október kl. 18

Geimþrá, 2015.

Listasafn Reykjavíkur kynnir með ánægju sýninguna Geimþrá sem opnuð verður í Ásmundarsafni við Sigtún föstudaginn 16. október kl. 18.

Á sýningunni eru verk eftir listamenn sem hver um sig hafa sett mark sitt á íslenska listasögu 20. aldar, einkum þegar litið er til þrívíðrar myndlistar. Auk verka Ásmundar Sveinssonar (1893–1982) eru á sýningunni verk eftir Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Öll voru þau undir áhrifum frá módernisma síðustu aldar þegar trú á nýjungar og tækni var drifkraftur bæði vísinda og lista. Verkin á sýningunni eru flest frá 6. og 7. áratugnum og vísa til tækniframfara þess tíma, í framtíðarsýn geimvísinda, en einnig til vísindaskáldskapar sem þá var orðin þekkt grein innan bókmennta og kvikmynda.

Sýningin Geimþrá skoðar hvernig sú framtíðarsýn, sem einkenndi samtíma listamannanna, hafði áhrif á rýmis- og formhugsun, sem og inntak verka þeirra. Valin verk Ásmundar, Gerðar, Jóns Gunnars og Sigurjóns eru tengd saman á formrænan og hugmyndafræðilegan hátt, og athugað hvernig  listamennirnir leitast við að færa hugmyndir vísinda í efnislegan búning. Hér birtast því bæði draumar og  martraðir módernismans um framtíðina sem endurspegla þær gríðarlegu tækninýjungar sem urðu á 20. öld.

Leiðarstef sýningarinnar er sameiginlegur áhugi þeirra á himingeimnum og vísindum tengdum honum. Ásmundur hreifst fyrst og fremst af framförum geimvísindanna, á meðan Sigurjón var áhugamaður um stjörnufræði. Gerður Helgadóttir kannaði dulspekilegar víddir geimsins en Jón Gunnar skoðaði hann frá sjónarhorni vísindaskáldskapar.

Þó manneskjan sé enn bundin jörðinni verður hið sama ekki sagt um tæknina og hugarflugið. Líkt og vísindaskáldskapurinn sem sækir efni sitt til ókominnar tíðar, má sjá hvernig listamenn sýningarinnar beita hugarfluginu til að komast út í geim og í leit sinni að birtingamyndum framtíðarinnar.

Í tengslum við sýninguna Geimþrá fer fram fjölbreytt dagskrá fyrir börn og fullorðna sem unnin er í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness. Dagskráin er að hluta háð birtu og veðri og verður kynnt síðar. Áhugasamir hvattir til að fylgjast með á heimasíðu Listasafns Reykjavíkur, www.listasafnreykjavikur.is.

Sýningunni lýkur 7. febrúar 2016.