Um 5000 gestir á Safnanótt

Ilmur Stefánsdóttir ásamt hljómsveitinni Cyber.

Hátt í fimmþúsund gestir gerðu sér ferð í Listasafn Reykjavíkur á Safnanótt. Fjölmennast var í Hafnarhúsi við opnun sýningar Ilmar Stefánsdóttur, Panik. Ilmur framdi gjörning þar sem hún hljóp í risastóru hamsturshjóli og undir lék hljómsveitin Cyber. Starfsfólk safnsins sagði gestum frá áhugaverðum verkum á sýningu Ilmar og öðrum sýningum í húsinu. 

Á Kjarvalsstöðum komust færri að en vildu í listaverkageymslurnar í kjallaranum en þangað var farið í litlum hópum þar sem starfsfólk safnsins sýndi og sagði frá. Innsetning Curvers og félaga í @change listhópnum vakti athygli gesta sem einnig fengu að njóta leiðsagnar starfsfólksins á Kjarvalsstöðum um valin verk. 

Í Ásmundarsafni var vel sótt fjölskyldusmiðja í umsjá listakonunnar Söru Riel og Pétur Ármannsson arkitekt sagði frá hinni merku byggingu sem Ásmundarsafn er. 

Takk fyrir komuna allir – sjáumst fljótt aftur!