Veldu ár
Eilíf endurkoma – Kjarval og samtíminn
Á þessari viðamiklu sýningu mynda verk Jóhannesar S. Kjarvals (1885-1972) þráð sem tengir tvenna tíma. Hér er verkum hans teflt fram ásamt verkum myndlistarmanna sem sett hafa svip sinn á íslenskt listalíf síðustu ár.
Skömmu eftir andlát Kjarvals ritaði Björn Th. Björnsson (1922-2007) listfræðingur grein þar sem hann fjallar um framlag Kjarvals til íslenskrar listasögu og segir að verk hans séu „aldrei í einum tíma stödd, heldur jafnan íþætt endurvöktum minnum“. Hér má lesa þá miklu virðingu sem Íslendingar hafa borið fyrir list Kjarvals en líka þá staðreynd að áhorfendur hvers tíma koma að verkum hans með eigin reynslu og viðhorf. Áhrif Kjarvals eru ótvíræð og á sýningunni eru áhrif hans á íslenska listamenn dregin fram í dagsljósið. Þau geta sýnt sig með ýmsu móti og verið augljós og afgerandi eða þá að þau birtast með óræðari hætti og án ásetnings.
Algengasta og ástkærasta myndefni Kjarvals var íslensk náttúra og landslag en auk þess gerði hann mikið af mannamyndum og fantasíum þar sem verur og fígúrur skjóta upp kollinum og ýmis náttúrufyrirbrigði eru persónugerð. Verk listamanna á sýningunni eru unnin í fjölbreytta miðla og þar má sjá ólíka nálgun að þessum viðfangsefnum.
Kjarval skipar stóran sess í íslenskri menningar- og listasögu og hefur verið síðari kynslóðum listamanna fyrirmynd og innblástur. Persóna hans og lífsverk svífur yfir vötnum og er það ekki að ósekju. Hjá Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum eru verk Kjarvals varðveitt og rannsökuð. Valin verk hans eru alltaf til sýnis og settar upp fjölbreyttar sýningar sem varpa ljósi á feril hans á breiðum grunni. Gjarnan eru dregin fram verk úr safneign eða sérsýningar haldnar þar sem afmarkaðir þættir í ferli hans og listsköpun eru rannsakaðir. Á þessari sýningu eru verk Kjarvals sett í samtal við yngri verk starfandi listamanna. Sýningin býður því upp á að kynnast enn betur einum merkasta listamanni þjóðarinnar en einnig verkum starfandi listamanna í fremsta flokki sem hafa sett mark sitt á íslenska og alþjóðlega myndlistarsenu.
Uppbrot sjónsviðsins birtist okkur í verkum Ólafs Elíassonar. Í fyrsta sinn á Íslandi er sýnd röð málverka eftir Ragnar Kjartansson sem hann málaði í Eldhrauni og var innblásin af Kjarvalsverki sem Ragnar á sjálfur. Vídeóinnsetningin Lava&Moss eftir Steinu er meðal umfangsmeiri verka á sýningunni og ný málverk Eggerts Péturssonar eru til sýnis.
Fjölskyldur athugið! Bakpokar eru til láns í móttöku með ýmsum skemmtilegum verkefnum sem gera heimsókn á sýninguna forvitnilega og spennandi!
Bein útsending frá sýningaropnun
Smelltu á myndirnar til að skoða fleiri myndir á Instagram og póstaðu þínum eigin með því að merkja þær með #myllumerki sýningarinnar.
Mundu að fylgja Listasafni Reykjavíkur á @reykjavikartmuseum.