Ásmundur Sveinsson
Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var einn af frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar. Fyrr á árum mættu verk hans iðulega andstöðu og hörðum dómum en með tímanum hafa þau fest sig í sessi sem ein af birtingarmyndum íslenskrar sagnahefðar, samfélags og náttúru á 20. öld. Hann stundaði nám við sænsku listakademíuna í Stokkhólmi undir handleiðslu myndhöggvarans Carls Milles.
Í lok þriðja áratugar aldarinnar dvaldist Ásmundur í París um þriggja ára skeið og ferðaðist um Grikkland og Ítalíu. Sá tími hafði ekki síður áhrif á þróun hans sem listamanns en námsárin í Stokkhólmi. Ásmundur hélt alla tíð tryggð við þá afstöðu að listin ætti erindi til fólksins og ætti heima á meðal þess. Hann var kallaður alþýðuskáldið í myndlist og án efa á sú hugsjón rætur að rekja til lífsafstöðu hans ekki síður en höggmyndahefðarinnar. Mörg af verkum hans voru hugsuð sem hluti af opinberu rými, órofa hluti af umhverfi sínu eða útfærð sem hönnun og nytjahlutir.
Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg verk sín ásamt heimili sínu eftir sinn dag. Ásmundarsafn við Sigtún er helgað verkum Ásmundar og var formlega opnað vorið 1983. Verkin í safninu spanna alla starfsævi listamannsins og sýna þau hvernig listferill hans þróast og breytist á langri ævi. Einnig má finna fjölmargar höggmyndir eftir Ásmund í opinberu rými í Reykjavík. Í Ásmundarsafni eru haldnar sýningar á verkum listamannsins svo og verkum annarra listamanna sem hafa gjarnan vísun í list Ásmundar.
Ásmundur hannaði bygginguna að mestu leyti sjálfur á árunum 1942-59. Hann byggði meðal annars bogalaga byggingu aftan við húsið sem var bæði hugsuð sem vinnustofa og sýningarsalur. Arkitektinn Mannfreð Vilhjálmsson hannaði síðar viðbyggingu sem tengir aðalhúsið og bogabygginguna saman. Formhugmyndir hússins eru sóttar til Miðjarðarhafsins, í kúluhús Araba og píramída Egyptalands. Í garðinum við safnið er að finna mörg verka Ásmundar sem hafa verið stækkuð eða unnin sérstaklega til að standa utandyra.